„Þetta er miklu flottara en ég átti von á,“ sagði einn fjölmargra viðskiptavina sem mættu í morgun þegar Kallabakarí opnaði á nýjum stað við Innesveg 1.
Mikil örtröð var í morgun þegar skagafrettir.is litu þar við í eitt „karrýstykki“ og kaffi. Það smakkaðist það vel að útsendari Skagafrétta gleymdi að taka mynd.
Bræðurnir Alfreð Freyr og Axel Már Karlssyni, ákváðu að breyta um nafn á hinu rótgróna fyrirtæki sem fjölskylda þeirra hefur rekið með góðum árangri við Suðurgötu.
Skagamenn hafa í gegnum tíðina notað „Kallabakarí“ um fyrirtækið Brauða-og kökugerðina sem Alfreð F. Karlsson stofnaði árið 1967.
Synir hans, Karl og Axel, tóku við rekstrinum og í dag eru þriðja og fjórða kynslóð úr þessari miklu bakaraætt við störf hjá fyrirtækinu.
Nafnabreytingin er gerð til þess að heiðra minningu Karls Alfreðssonar bakara – sem lést fyrir rúmlega ári síðan eftir langvarandi veikindi.
Hér fyrir ofan er mynd sem tekin var fyrir nokkrum árum og birtist í Póstinum. Frá vinstri: Teitur Pétursson, Jón Björgvin Kristjánsson, Alfreð Freyr Karlsson, Garðar Haukur Guðmundsson og Karl Alfreðsson – sem Kallabakarí er nefnt eftir.
Auglýsing
Bræðurnir Alfreð Freyr og Axel Már Karlssyni, ákváðu að breyta um nafn á hinu rótgróna bakaraíi sem fjölskylda þeirra hefur rekið allt frá árinu 1967 við Suðurgötu.
Nýja húsnæðið er við hliðina á Bílver/Hondaumboðinu. Kallabakarí er þrefalt stærra en gamla rýmið við Suðurgötuna og fyrir viðskiptavini er breytingin gríðarleg. Rúmlega 40 manns geta notið veitinga á nýja staðnum í rúmgóðu og vel hönnuðu rými. Á gamla staðnum var pláss fyrir 4-6 við borðin í einu.
Daði Alfreðsson, sonur Alfreðs Karlssonar, gaf sér aðeins eitt augnablik fyrir myndatöku – en hann hafði í nógu að snúast á opnunardeginum.
Auglýsing