ÍA gæti fengið 7,5 milljónir kr. ef Arnór verður seldur fyrir metfé

Arnór Sigurðsson er orðaður við rússneska liðið CSKA frá Moskvu. Hinn 19 ára gamli Skagamaður hefur leikið sem atvinnumaður hjá Norrköping í Svíþjóð undanfarin tvö tímabil. Hann samdi við sænska liðið vorið 2017.

Samkvæmt heimildum fréttavefsins fotbolti.net hefur CSKA Moskva lagt á ný fram tilboð í leikmanninn en félagið hefur sýnt Arnóri áhuga á undanförnum mánuðum.

Samkvæmt sænska dagblaðinu Expressen er CSKA Moskva tilbúið að greiða um 355 milljónir kr. fyrir Arnór og upphæðin gæti farið upp í 500 milljónir kr. Ef af þessu verður væri um met að ræða hjá sænska liðinu og yrði Arnór dýrasti leikmaðurinn sem félagið hefur selt.

Arnór hefur skorað þrjú mörk í 16 leikjum á þessari leiktíð.  CSKA endaði í öðru sæti deildarinnar í fyrra en landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússn er meðal leikmanna liðsins.

Ef af þessu verður gæti Knattspyrnufélag ÍA fengið uppeldisbætur fyrir Arnór. Upphæðin er um 1,5% af kaupverðinu. Ef hann verður seldur fyrir allt að 500 milljónir kr, fengi ÍA um 7,5 milljónir kr. og Norrköping fengi 5 milljónir kr. í uppeldisbætur.

Félög sem hafa alið upp leikmenn  á aldurstímabilinu 12-15 ára fá 0,25% af kaupverðinu fyrir hvert ár.
Eftir 15 ára aldurinn fer hlutfallið upp í 0.5% fyrir hvert ár fram til 23 ára aldurs.
Uppeldisbætur eru aðeins greiddar ef leikmenn eru seldir á milli landa.

Auglýsing