Fyrstu bikarmeistarar ÍA, sem hrepptu titilinn í níundu tilraun árið 1978, voru heiðursgestir á upphitun Sterkra Skagamanna fyrir leik ÍA og Víkings frá Ólafsvík. Veislusalurinn á eftir hæð vallarhússins var þétt setinn þegar Hörður Helgason rakti gengi Skagamanna þetta sumarið og sérstaklega í bikarúrslitaleiknum.
Hörður lýsti ekki aðeins liðinu og greindi gengi þeirra í bikarkeppninni þetta árið. Hann leiklék líka sigurmarkið sem Pétur Pétursson skoraði með hægri í þessum sögulega bikarúrslitaleik. Hörður sagði mönnum að vísu fyrst að loka augunum svo þeir sæju fyrir sér markið en þeir sem héldu þeim opnum geta eflaust verið sammála um að Pétur hefði mátt hafa sig allan við í blóma lífsins að leika eftir tilþrif Harðar.
Hörður benti á að Skagamenn hefðu búið að óvenjulegu vopni þetta sumar, það voru svo margir Jónar í liðinu. Það voru þeir Jón Alfreðsson, Jón Áskelsson, Jón Gunnlaugsson og Jón Þorbjörnsson, auk (Guð)Jóns Þórðarsonar og Jó(hannesar) Guðjónssonar. Hörður sagði að það hefði boðið heim hættunni á ruglingi: að þegar þjálfari andstæðinganna gæfi skipanir um að valda Jón með einhverjum hefðu leikmenn einfaldlega orðið spurningamerki í framan og spurt: Hvaða Jón?
Sem fyrr kom Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari og fór yfir byrjunarlið og markmið leiksins meðan stuðningsmenn gæddu sér á veitingum. Þetta var fjölmennasta samkoma Sterkra Skagamanna til þessa. Félagið var stofnað í vor, skömmu fyrir fyrsta leik, og er markmið tvíþætt. Annars vegar að vera góður félagsskapur stuðningsmanna, hins vegar að afla fjár til að styrkja Skagaliðið svo það sé betur í stakk búið að berjast meðal þeirra bestu. Því hafa verið haldnar upphitanir fyrir alla heimaleiki og einstaka útileik auk þess sem golfmót félagsins fór fram í sumar.
Auglýsing