Spölur gerir á síðasta fjórðungi ársins upp við viðskiptavini sína í tilefni af því að félagið hættir að innheimta veggjöld 28. september og afhendir ríkinu Hvalfjarðargöng 30. september, að því gefnu að Ríkisskattstjóri komist í tæka tíð að viðunandi niðurstöðu um skattalega afskrif ganganna og Samgöngustofa skili fyrirvaralausri niðurstöðu úttektar á göngunum.
Spölur tekur við veglyklum gegn skilagjaldi, greiðir út inneignir á áskriftarreikningum og borgar fyrir ónotaða afsláttarmiða sem skilað er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Speli.
Veglyklar
Veglyklar áskrifenda eru eign Spalar líkt og kveðið er á um í áskriftarsamningum. Miðað er við að notendur afhendi veglyklana fyrir 1. desember 2018 gegn 3.000 króna skilagjaldi fyrir hvern lykil.
Áskrifendur geta skilað veglyklum sínum á þjónustustöðvum og fá skilagjaldið greitt inn á bankareikningana sína. Þjónustustaðirnir eru
Olíudreifing ehf. að Hólmaslóð 8-10 í Reykjavík
N1 Ártúnshöfða
N1 Háholti í Mosfellsbæ
N1 Borgarnesi
skrifstofa Spalar ehf. að Kirkjubraut 28 á Akranesi.
Þeir sem ekki hafa tök á að skila veglyklum á þessa staði á tilskildum tíma (fyrir 1. desember 2018) geta sent lyklana í umslagi til Spalar:
Spölur
Kirkjubraut 28
300 AKRANES
Afar áríðandi er að með fylgi upplýsingar um nafn sendanda, kennitölu, símanúmer, bankaupplýsingar og númer veglykla sem skilað er.
Þeir sem sjá fram á að nota ekki veglyklana sína í sumar ættu að skila lyklunum strax og fá greitt skilagjald og inneign á áskriftarreikningum.
Inneign á áskriftarreikningum
Inneign á áskriftarreikningum, vegna ferða sem viðskiptavinir Spalar hafa greitt fyrir en ekki farið, verður greidd út þegar veglyklum hefur verið skilað.
Tilheyrandi skilagrein er fyllt út þegar tekið er við veglyklum á þjónustustöðvum. Þar er skráð kennitala og bankaupplýsingar viðkomandi, sem er nauðsynleg forsenda snurðulausrar endurgreiðslu inneignar.
Ef nauðsyn krefur áskilur félagið sér í einhverjum tilvikum lengri frest en 30 daga til að ljúka uppgjöri vegna þeirra aðstæðna að rekstri Spala lýkur í framhaldinu og uppgjörsmál af því tilefni skipta tugum þúsunda.
Hvenær breytist viðskiptasamband Spalar og viðskiptavina félagsins?
Reikningar vegna áskriftarferða voru sendir eins og venjulega til loka ágústmánaðar.
Í september verður ferðum hvers áskrifanda, sem tæmt hefur innistæðu á inneignarreikni sínum, safnað saman og reikningar sendir þeim í október vegna veggjalds í september.
Afsláttarmiðum skilað
Olíudreifing ehf. að Hólmaslóð 8-10 í Reykjavík tekur við afsláttarmiðum og skrifstofa Spalar á Akranesi sömuleiðis.
Afsláttarmiðum má annars skila í umslagi og senda í pósti til Spalar:
Spölur
Kirkjubraut 28
300 AKRANES
Afar áríðandi er að með fylgi upplýsingar um nafn sendanda, kennitölu, símanúmer, bankaupplýsingar, fjölda afsláttarmiða og númer afsláttarmiða, til þess að unnt sé að koma greiðslu til skila!
Þjónustustöðvar olíufélaganna taka ekki við afsláttarmiðum.