Bakvörður markakóngur? – þrumufleygar Þórs vekja athygli

Þrumuskot úr aukaspyrnum eru oft fallegustu mörkin og þau eftirminnilegustu í knattspyrnuleikjum víðsvegar um veröldina.

Stórstjörnur á borð við Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa glatt marga í gegnum tíðina með snilldarskotum sínum úr aukaspyrnum.

Á Akranesi hefur 18 ára leikmaður í 2. flokki karla náð áhugaverðum árangri á leiktíðinni með frábæru liði ÍA. „Eitraður“ vinstri fótur hans hefur svo sannarlega skilað árangri í aukaspyrnum fyrir liðið. Þór Llorens Þórðarson, vinstri bakvörður ÍA í 2. flokki, er markhæsti leikmaður liðsins ásamt Stefáni Ómari Magnússyni.

Báðir hafa þeir skorað 9 mörk fyrir ÍA í sumar en liðið getur með sigri í lokaumferðinni tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Lokaleikurinn er gegn Fylki á fimmtudaginn á útivelli og hefst hann kl. 17. Það eru 13 ár síðan ÍA sigraði síðast á Íslandsmótinu í þessum aldursflokki.

Það sem er áhugavert við markaskorun Þórs er að hann hefur skorað 8 mörk með skotum beint úr aukaspyrnum og aðeins eitt mark hefur hann skorað í opnum leik.

Þór skoraði m.a. í gær í frábærum 5-1 sigri ÍA gegn liði Breiðabliks í toppslag liðanna í A-deild Íslandsmótsins.

Hér er annað mark úr aukaspyrnu frá Þór í leik með 2. fl. ÍA.

Til að setja hlutina í samhengi þá er til fróðleg tölfræði hjá bestu leikmönnum heims á þessu sviði.

Lionel Messi hefur skorað alls 40 mörk á öllum ferli sínum með skotum beint úr aukaspyrnum, 34 mörk fyrir Barcelona á Spáni og 6 mörk fyrir landslið Argentínu. Mörkin hjá Messi alls á ferlinum fram til þessa eru 770.

Ronaldo er aðeins ofar á þessu sviði en hann hefur skorað 53 mörk á ferlinum beint úr aukaspyrnum. Þar af 13 sinnum sem leikmaður Manchester United, 32 mörk fyrir Real Madrid og 8 sinnum fyrir landslið Portúgals. Þess má geta að Ronaldo þurfti yfir 300 tilraunir til þess að skora 20 mörk úr aukaspyrnum fyrir Real Madrid – sem er um 6,6% líkur.

Marvin Plattenhardt leikmaður þýska liðsins Hertha Berlín er með bestu tölfræðin á þessu sviði á s.l. fimm tímabilum. Þýski leikmaðurinn hefur tekið 28 aukaspyrnur á s.l. fimm tímabilum og skorað úr 6 þeirra. Það er 21,43% nýting og var sú besta í samantekt vefmiðilsins squawka.com á þessu sviði í Evrópu.

Nánar má lesa um þá samantekt hér.