Ísak skrifaði nýjan kafla í knattspyrnusögu ÍA – bætti met Sigga Jóns

Ísak Bergmann Jóhannesson skrifaði nýjan kafla í knattspyrnusögu Akraness þegar hann kom inná sem varamaður í leik ÍA gegn Þrótti R. í Inkasso-deildinni s.l. laugardag.

Ísak Bergmann var 15 ára og 182 daga gamall á þessum degi og er hann yngsti leikmaðurinn sem tekur þátt í Íslandsmótsleik hjá mfl. ÍA frá upphafi.

Gamla metið átti Sigurður Jónsson, sem er aðstoðarþjálfari ÍA, en Sigurður var 15 ára og 300 daga gamall þegar hann lék sinn fyrsta mfl. leik fyrir ÍA.

Árið 2018 verður án efa eftirminnilegt fyrir Ísak Bergmann. Hann varð Norðurlandameistari með U-16 ára landsliði Íslands, Íslandsmeistari með 2. flokki karla og lék sinn fyrsta leik með mfl. ÍA.

Oliver Stefánsson, sem er 16 ára gamall, lék einnig sinn fyrsta leik fyrir ÍA gegn Þrótti R.- en Ísak og Oliver eru systrasynir og náfrændur.

 

Auglýsing