Gríðarleg eftirspurn eftir nýjum leiguíbúðum Bjargs á Akranesi

Leiguíbúðum á Akranesi mun fjölga mikið á næstunni þegar framkvæmdum við 33 leiguíbúðir verður lokið við Asparskóga á Akranesi. Bjarg íbúðafélag stendur á bak við þessa framkvæmd.

Fyrstu íbúðirnar verða afhentar um mitt sumar 2019. Akraneskaupstaður fær átta íbúðir til ráðstöfunnar í íbúðarkjarnanum.

Bjargi er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Íbúðirnar í Asparskógum verða því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn á Akranesi. Það er ljóst að eftirspurnin er meiri en framboðið á þessum íbúðum. Alls hafa 81 umsókn borist nú þegar um þessar 33 íbúðir sem eru í byggingu á Akranesi.

Modulus munu sjá um byggingu húsanna og arkitekt er Svava Björg Jónsdóttir.

Um er að ræða 40,4 fermetra stúdíóíbúðir, 52 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 77 fermetra þriggja herbergja íbúðir og 93 fermetra fjögurra herbergja íbúðir.

Félagið er nú þegar með tæplega 238 íbúðir í byggingu og um 430 í hönnunarferli en þegar hafa verið veitt framlög til Bjargs vegna uppbyggingar á 668 íbúðum í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Akureyri, Þorlákshöfn og Sandgerði.

„Það er ánægjulegt að vita að umsóknir séu orðnar 81 talsins um húsnæði við Asparskóga á Akranesi og það er greinilegt að vel er tekið í þennan nýja búsetukost. Ég hvet þá sem hafa áhuga að nýta sér tækifærið og sækja um á meðan þessi valmöguleiki er fyrir hendi,“ er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra á Akranesi á vef Akraneskaupstaðar.

Opið er fyrir umsóknir og skráningu á biðlista hjá Bjargi á heimasíðu félagsins, www.bjargibudafelag.is.

Um Bjarg

Bjarg er húsnæðis sjálfseignastofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða leiguheimili að norrænni fyrirmynd sem standa munu til boða þeim félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem hafa verið fullgildir félagsmenn s.l. 24 mánuði miðað við úthlutun og eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum.

Auglýsing