Skagamaðurinn Almar er sannur „Járnkarl“ – rúllaði upp einni erfiðustu keppni heims

„Ég er eiginlega ekki að trúa þessu. Ég náði að klára Járnkarlinn/Ironman á 10 klst og 58 mínútum. Það var miklu betri árangur en ég hafði búist við. Ég var að gæla við að ná þessu á 12 klst. og jafnvel á 11 ½ klst í mínum villtustu draumum. Tíminn var því miklu betri en ég átti von á,“ segir hinn 37 ára gamli Skagamaður Almar Viðarsson við skagafrettir.is.

Almar náði frábærum árangri í sinni fyrstu keppni í Járnkarli eða þríþraut – þar sem syntir eru tæplega 4 km. í sjó, síðan tekur við um 180 km hjólreiðatúr og að lokum er hlaupið heilt maraþon eða 42,2 km. Keppnin fór fram rétt við Barcelona á Spáni.

En hvernig kom það til að Almar ákvað að skrá sig til keppni í einni erfiðustu íþróttakeppni heims?

„Hafþór Benediktsson frændi minn og núverandi þjálfari bauð mér að kaupa af sér hjól sem ég var að leita að. Hann seldi mér hjólið á góðum kjörum en skilyrðið var að ég færi með honum í Járnmanninn hér í Barcelona. Ég sagði bara já án þess að hugsa mig um. Hér erum við og báðir búnir með þessa þrekraun.“

„Þetta fjölmennasta keppnin í heiminum. Ég er mjög ánægður með árangurinn. Ég vann allavega Hafþór frænda minn og það var ánægjulegt. Það voru um 20 keppendur frá Íslandi og einn þeirra komst inn á HM á næsta ári. Ég hef því að einhverju að stefna fyrir næstu keppni.“

Almar endaði í 827. sæti í heildarkeppninni – og hann varð í sæti nr. 772 í karlaflokknum og í 153. sæti í flokki 35 ára og eldri. Alls luku 2.745 keppendur keppni en rúmlega 3000 hófu keppnina.

„Mér líður ágætlega,“ segir Almar þegar hann er inntur eftir því hvernig líkaminn hafi brugðist við þessari þrekraun. „Ég er stífur í fótunum og finn alveg fyrir þessu. Ég ætla örugglega aftur á næsta ári. Ég þarf að semja við fjölskylduna og þá förum við hingað til að bæta árangurinn,“ bætir Almar við en hann æfði vel fyrir þessa keppni- og mest síðustu 12 vikurnar fyrir brottför.

„Á síðustu 12 vikum hef ég æft gríðarlega mikið. Ég hef í raun ekki hugmynd um hversu margar klukkustundir ég lagt að baki í æfingar – en þær eru margar.“

Sundið var langerfiðasti hlutinn að mati Almars, hér er hann með græna sundhettu að vippa sér upp úr sjónum.

„Ég hef lítið synt í sjó áður og aðstæðurnar hérna voru mjög erfiðar. Þeir sem keppt hér áður hafa aldrei séð aðrar eins öldur í sundkeppni. Ég get varla sagt að ég hafi verið syndur þegar ég byrjaði að æfa mig fyrir Járnmanninn. Ég hef fengið aðstoð frá góðu fólki á Akranesi og ég náði að klóra mig í gegnum þessa tæplegu 4 km. Ég tók ranga beygju í sundinu og fór aðeins lengra en margir aðrir. Það voru miklir straumar og gríðarleg alda. Mér tókst að komast í gegnum straumana og inn á réttu brautina. Skriðsundið var það sem ég notaði þegar ég gat, en ég notaði bringusundið þegar öldurnar voru sem hæstar. Það fóru 8 keppendur út í sjóinn með 5 sekúndna millibili. Það var því mikið öngþveiti þarna og þegar allir 3000 keppendurnir voru komnir af stað var þetta barátta um að halda „stöðunni“. Ég fékk högg í andlitið og höfuðið og ég hef örugglega slegið í einhverja keppendur líka. Maður sér ekkert í þessum aðstæðum og reynir bara að koma sér hratt áfram.“

Hjólreiðahlutinn kom Almari ekki á óvart en hann hafði æft þann hluta mikið í sumar í Hvalfirðinum.

„Í sumar hjólaði ég fram og til baka í Hvalfirðinum í hverri einustu viku til að æfa mig fyrir þetta. Ég vissi því hvernig hjólahlutinn yrði. Ég hafði hjólað rúmlega 152,5 km. margoft við erfiðar aðstæður á Íslandi. Mér leið því vel á hjólinu hér á Spáni þar sem við fórum rúmlega 180 km. Ég var á um 33,2 km. meðalhraða á hjólinu og það var bara þægilegt. Púlsinn var ekki farinn af stað og ég var því vel stemmdur þegar ég byrjaði á maraþonhlaupinu.“

Maraþonhlaupið var ekki stór hindrun fyrir Skagamanninn þegar hann átti þann hluta eftir. Góð ráð frá frænda hans og þjálfara, Hafþóri Benediktssyni, komu sér vel fyrir Almar.

„Hafþór frændi minn var að keppa hér í þriðja sinn. Hann gaf mér ráð að vera rólegur í hlaupinu svona fyrstu 8 km. af alls 42 km. Ég var því frekar rólegur og gaf aðeins þegar á leið á hlaupið. Það var stórkostleg tilfinning að komast í markið og ná að klára þetta,“ sagði Almar Viðarsson við skagafrettir.is

 

Almar er hér ásamt þjálfara sínum, Hafþóri Benediktssyni.

Auglýsing