Virtur bandarískur tónlistarhópur hljóðritaði í Akranesvita

Nýverið kom fjölmennur hópur listamanna hingað á Akranes til þess að hljóðrita tónlist. Hópurinn, sem kallar sig apartmentsessionsnyc.com kom víða við á Íslandi í heimsókn sinni.

Að sjálfsögðu var Akranesviti fyrir valinu í ferðalagi hópsins sem er frá Bandaríkjunum. Margir þeirra sem skipa hópinn hafa lært við hinn virta Berklee tónlistarskóla.

Skagakonurnar Brynja Valdimarsdóttir og Inga María Hjartardóttir voru hópnum til halds og trausts hér á Íslandi.

Inga María stundaði nám við Berklee í Boston og Brynja stundaði einnig tónlistarnám í Bandaríkjunum og þekkir marga úr hópnum sem kom til Íslands.

Apartmentsessionsnyc.com fór víða um landið eins og áður segir. Þau hljóðrituðu lög m.a. í Surtshell og í kirkju á Skagaströnd.

Hér fyrir neðan má sjá brot frá æfingu hópsins í Akranesvita.

 

Auglýsing