Akraneskaupstaður boðar samstarf um forvarnir við minningarsjóð Einars Darra

Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að hefja viðræður við forsvarsmenn Minningarsjóðs Einars Darra – Ég á bara eitt líf um forvarnarstarf á Akranesi. Tillaga þess efnis var samþykkt í bæjarráði þann 10. okt. s.l.

Minningarsjóður Einars Darra, stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi.

Einar Darri Óskarsson var aðeins 18 ára þegar hann lést þann 25. maí s.l. vegna ofneyslu lyfsins OxyContin. Hann var nemandi í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Fyrsta verkefni Minningarsjóðs Einars Darra var að standa fyrir og styrkja baráttuna #egabaraeittlif sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi. Fyrstu skrefin í þeirri baráttu eru að opna umræðuna og vinna að forvörnum.

Markmið baráttunnar #egabaraeittlif

Sporna við og draga úr misnotkun fíkniefna, með áherslu á lyf
Opna umræðuna um misnotkun lyfja hér á landi
Auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar lyfja
Opna umræðu um vöntun á bættum meðferðarúrræðum