Er erfiðara að leika gegn liðum sem eru einum leikmanni færri?

Það gerist oft að leikmenn eru reknir af leikvelli í knattspyrnuleikjum og þurfa þjálfarar að bregðast við því með ýmsum hætti.

Oft hafa þeir þjálfarar sem eru með 11 leikmenn inni á vellinum sagt að það sé erfiðara að leika gegn liðum sem hafa aðeins 10 leikmenn inni á vellinum.

Adam Greenberg, sem nýverið lauk háskólanámi í Nottingham á Englandi, skrifaði lokaritgerð um þetta málefni. Þar rannsakaði hann 1.520 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu 2009-2013 og var niðurstaðan birt í tímaritinu Significance.

Helstu niðurstöður rannsóknar Greenberg eru eftirfarandi:

Lið sem er einum leikmanni færri skorar mun færri mörk að meðaltali og fær mun færri stig að meðaltali í slíkum aðstæðum.

„Rannsóknin sýnir fram á að það munar að meðaltali hálfu stigi á þeim liðum sem eru með 11 leikmenn inni á vellinum og þeim sem lenda í því að vera manni færri,“ segir Greenberg í viðtali við tímaritið. Hann er sá fyrsti sem beinir sjónum sínum að ensku úrvalsdeildinni á þessu sviði en aðrar rannsóknir úr öðrum deildum Evrópu hafa leitt af sér svipaðar niðurstöður.

Helsti munurinn hjá þeim liðum sem eru einum færri er sá að það skiptir miklu máli hvort liðin séu á útivelli eða heimavelli.

„Það er tvisvar sinnum meiri munur á því hvort liðið sé á heimavelli eða útivelli, og heimaliðið tapar helmingi fleiri stigum að meðaltali í slíkum tilvikum.“

Heimaliðin fengu að meðaltali 1,69 stig í leik á tímabilinu sem rannsakað var í ritgerð Greenberg þegar bæði liðin voru með 11 leikmenn inni á vellinum frá upphafi til enda.

Ungur knattspyrnukappi úr ÍA. Mynd/skagafrettir.is
Ungur knattspyrnukappi úr ÍA. Mynd/skagafrettir.is

Þegar útilið missti mann af velli fékk heimaliðið að meðaltali 2,05 stig út úr leiknum af þremur mögulegum. Hinsvegar fékk heimaliðið aðeins 0,83 stig að meðaltali ef leikmaður úr þeirra röðum var rekinn af velli. Munurinn er 0,86 stig sem er töluvert.

Að mati Greenberg er pressan meiri á heimaliðinu þegar liðin leika á heimavelli og óttinn við að tapa fyrir framan eigin áhorfendur er oft mikill.

Minni pressa sé hinsvegar á gestaliðinu í slíkum tilvikum. Þeir hafi engu að tapa einum færri og sækja því oft af krafti og reyna að skora sigurmarkið á meðan heimaliðið reynir að gera sem fæst mistök.

Það er einnig marktækur munur á því í hvaða stöðu leikmenn sem reknir eru af velli eru.
Ef varnarmaður er rekinn af velli tapa liðin að meðtali 1 stigi en þegar sóknarmaður er rekinn af velli er munurinn 0,9 stig. Það borgar sig að láta miðjumennina taka „fórnina“ ef það er í boði því liðin töpuðu að meðaltali 0,6 stigum í slíkum tilvikum.

Greenberg er hvergi nærri hættur en hann er að rannsaka tvær fullyrðingar í fótboltaheiminum. Sú fyrri er að tvö núll sé hættulegasta staðan í fótboltaleik – og sú síðari er að lið séu veikust fyrir rétt eftir að þau hafa skorað mark.

Ungur knattspyrnukappi úr ÍA. Mynd/skagafrettir.is
Ungur knattspyrnukappi úr ÍA. Mynd/skagafrettir.is