Birgir Leifur einu skrefi frá sterkustu atvinnumótaröð Evrópu

Skagamaðurinn Birgir Leifur Hafþórsson hefur leik laugardaginn 10. nóvember á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar. Keppt er á Lumine golfsvæðinu við Tarragona rétt utan við Barcelona á Spáni.

Alls verða leiknir sex hringir og alls hafa 156 keppendur tryggt sig inn á lokaúrtökumótið og koma þeir frá 26 löndum.

Birgir Leifur hefur leik kl. 9.35 að íslenskum tíma laugardaginn 10. nóvember. Birgir Leifur er íþróttastjóri Golfklúbbsins Leynis en hann keppir undir merkjum GKG.

Birgir Leifur er einn reynslumesti kylfingurinn á lokaúrtökumótinu og fáir eiga sér eins langa sögu á þessu svið. Sjöfaldi Íslandsmeistarinn er að taka þátt í 20. skipti á úrtökumótinu og árangur hans er áhugaverður svo ekki sé meira sagt. Alls hefur Birgir Leifur komist inn á lokaúrtökumótið í 14 skipti fram til þessa.

Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni – en það gerði hann á lokaúrtökumótinu árið 2006. Árin 2007 og 2009 var hann með keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.

Aðeins einu sinni hefur Birgir Leifur fallið úr keppni á 1. stiginu (2016), og í fimm skipti hefur hann fallið úr leik á 2. stig úrtökumótsins (2002, 2003, 2011, 2012 og 2013).

Það er að miklu að keppa á þessu móti. Alls fá 25 efstu í mótslok keppnisrétt á Evrópumótaröðinni þar sem þeir verða í styrkleikaflokki 17 á næsta tímabili á Evrópumótaröðinni og í styrkleikaflokki 5 á Áskorendamótaröðinni.

Þeir kylfingar sem komast í gegnum niðurskurðinn að loknum fjórða hringnum og eru fyrir neðan 25. sætið komast í styrkleikaflokk 22 á Evrópumótaröðinni – og verða í styrkleikaflokki 9 á Áskorendamótaröðinni.

Þeir kylfingar sem komast ekki í gegnum niðurskurðinn komast samt sem áður í styrkleikaflokk 15 á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili.

Margir þekktir keppendur eru á lokaúrtökumótinu – líkt og ávallt á þessu móti. Má þar nefna Matteo Manassero frá Ítalíu. Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára gamall hefur Manassero sigrað fjórum sinnum á Evrópumótaröðinni. Hann sigraði síðast árið 2013 á BMW PGA Championship. Hann er yngsti sigurvegarinn á Evrópumótaröðinni frá upphafi. Manassero var 17 ára og 188 daga gamall þegar hann sigraði árið 2010. Þetta er í fyrsta sinn sem Manassero fer á lokaúrtökumótið. Alls eru 19 kylfingar á lokaúrtökumótinu sem hafa fagnað sigri eða sigrum á Evrópumótaröðinni.

Oliver Wilson frá Englandi er einnig á meðal keppenda. Hann er eini leikmaðurinn á mótinu sem hefur leikið með Ryderliði Evrópu. Wilson sigraði á Alfred Dunhill Links árið 2014 og á þessu ári hefur hann sigrað tvívegis á mótum á Áskorendamótaröðinni.

Auglýsing