Rúna Björg tekur risaskref – opnar Metabolic stöð í Reykjavík

„Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi s.l. 9 mánuði og er risastórt skref,“ segir Rúna Björg Sigurðardóttir eigandi Metabolic á Akranesi við Skagafréttir. Rúna Björg mun á næstu mánuðum víkka út starfsemi sína með opnun á Metabolic þjálfunarstöð í Reykjavík – sem hún gerir í samstarfi við Eygló Egilsdóttur.

Stefnt er að því að opna um miðjan desember við Stórhöfða 17 í Reykjavík – rétt við Gullinbrú. Í húsnæðinu var áður veitinga- og skemmtistaðurinn Hendrix.

Rúna Björg hefur verið hluti af Metabolic frá árinu 2012 og Eygló var með Metabolic í Árbæ allt fram til ársins 2016.  Eygló er einnig hönnuður og eigandi Jakkafatajóga á Íslandi.  Rúna segir að Eygló hafi hætt á sínum tíma með Metabolic í Árbæ vegna aðstöðuleysis og frá þeim tíma hafi hún leitað að hentugu húsnæði.

„Þetta fór ekki að rúlla af stað fyrr en við hófum náið samstarf við Helga Jónas Guðfinnsson, sem er höfundur Metabolic. Samstarfið við Helga Jónas hefur snúist um að gera allsherjar breytingar á vörumerkinu Metabolic og hefja markaðsstarfið á ný. Við vitum hvernig kerfið virkar og með nýjum áherslum er ekki annað hægt en að vera stórhuga og hrífast með,“ segir Rúna Björg og bætir við.

 

„Það er mikil eftirspurn eftir Metabolic í Reykjavík, bæði hjá þjálfurum og iðkendum. Við höfum fundið fyrir því. Það var enginn vafi hjá okkur þegar kom að því að taka ákvörðun um að grípa þetta tækifæri. Reykjavík er öðruvísi markaðssvæði en það sem við þekkjum á landsbyggðinni.

Það er ekki sjálfgefið að koma inn á markaðinn á þessu svæði þar sem samkeppnin er mikil – og halda velli. Við höfum mikla trúa á Metabolic kerfinu – teljum að það sé heilsteypt og við höfum trú okkur að koma sterk inn.“

Rúna og Eygló munu setja upp Metabolic Reykjavík í tæplega 500 fermetra húsnæði en til samanburðar er Metabolic á Akranesi í 130 fermetra rými.

Auglýsing„Ég hef töluverða reynslu sem er verðmæt núna þegar þetta verkefni fer af stað. Það er margt sem þarf að hugsa alveg upp á nýtt en það er ekki vandamál – bara spennandi verkefni. Metabolic kerfið hefur aldrei verið heilsteyptara og með reynsluna að vopni þá höfum við fulla trú á þessu. Þegar ástríðan er til staðar þá hugsar maður bara í lausnum,“ segir Rúna Björg en hún er að venju með marga bolta á lofti á sama tíma.

„Ég er í fullu háskólanámi við Bifröst þar sem ég legg stund á viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti. Það mun nýtast vel í þessu verkefni, bæði í tengslum við rekstur og markaðsstarf.“

Hlutverk Rúnu verður annað hjá Metabolic Reykjavík en það hlutverk sem hún hefur verið í hjá sjálfri sér í Metabolic á Akranesi.

„Hér á Akranesi mun ég alltaf gefa mér tíma að starfa á gólfinu við þjálfun samhliða rekstrinum og utanumhaldi. Í Metabolic Reykjavík verð ég meira á bak við tjöldin í stjórnunarstarfi. Ég sé til þegar ég er búinn með háskólanámið hvort ég fari að þjálfa líka í Reykjavík – sá hluti er of skemmtilegur til þess að sleppa því. Það eru ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum til þess að ég geti þjálfað í Reykjavík líka.“

Rúna Björg segir að lokum að eiginmaður hennar, Eyþór Óli Frímannsson, sé stoð hennar og stytta í öllu því sem hún taki sér fyrir hendur.

„Án hans væri erfitt að halda þessu öllu á lofti. Eyþór Óli stendur ekki aðeins vaktina heima eins og herforingi, hann styður mig í einu og öllu. Það skiptir öllu máli að hafa slíka stuðning heima svo allt gangi upp. Þessi verkefni eru oftast spennandi og skemmtileg en þetta er hörkuvinna. Oft þarf ég að fara langt út fyrir þægindarammann. Á þeim stundum hugsa ég mjög reglulega..djö.. hvað er ég búin að koma mér út í,“ sagði Rúna Björg

 

Auglýsing