Aron Elvar: „Draumurinn að komast í landsliðið og spila fyrir Ísland“

AuglýsingAron Elvar Dagsson er 14 ára Skagamaður sem hefur í nógu að snúast í íþróttalífinu. Aron Elvar var á dögunum boðaður á æfingar hjá U-15 ára landsliði Íslands í körfubolta. Aron æfir þrjár íþróttir með góðum árangri og segir hinn hávaxni og fjölhæfi íþróttastrákur að hann þekki ekkert annað og þjálfarar hans sýni því skilning að það sé nóg að gera.

Aron Elvar fékk á dögunum tækifæri að leika með meistaraflokki ÍA í körfubolta og er hann einn sá yngsti sem hefur leikið með ÍA í meistaraflokki. Eins og áður segir er Aron Elvar á leið á landsliðsæfingar en hann er fyrsti leikmaðurinn úr röðum ÍA í mjög langan tíma sem er boðaður á slíkar æfingar.

Hver er ástæðan fyrir því að þú æfir körfubolta?

„Ég hef haft áhuga á körfubolta síðan ég man eftir mér. Pabbi passaði náttúrulega upp á að það væri keypt leikfangakarfa í fullri stærð þegar ég var 2 ára. Pabbi minn spilaði körfubolta og það hafði mikil áhrif á að ég byrjaði að æfa körfubolta. Jón Þór Þórðarson hefur verið þjálfarinn minn í 8 ár en hann hefur gert góða hluti með körfuna og lagði góðan grunn að því hvernig ég spila í dag. Chaz Franklin byrjaði að þjálfa minn flokk núna í september og hefur það gert mjög mikið fyrir mig en hann er hvetjandi og með mjög góðar æfingar.“

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér núna í vetur/( skóli æfingar og annað) Hversu oft í viku æfir þú?


„Ég mæti í skólann á hverjum degi kl. 8:00 til kl. 13.20 og suma daga til 15.30. Ég fer síðan heim og fæ mér að borða og geri mig kláran fyrir æfingar en 4 sinnum í viku æfi ég tvisvar á dag, hina dagana 1 sinni.

Þá daga sem ég æfi tvisvar sinnum þá er fyrri æfingin um kl. 17:00-18:30 og hin frá 19:45-21:00, þetta er á virkum dögum en æfingarnar eru fyrr um helgar.

Ég fæ mér að borða á milli og geri mig síðan kláran fyrir næstu æfingu. Þegar ég kem heim á kvöldin þá þarf ég að næra mig og stundum fer ég í heitapottinn.

Ég æfi alla daga vikunnar, 5 körfuboltaæfingar í viku, 5 fótboltaæfingar og núna er 1 styrktaræfing í golfinu á viku.

Ég reyni að taka aukaæfingar og þá sérstaklega þegar það er 1 æfing yfir daginn. Þá tek ég skotæfingar, lyfti eða annað sem hjálpar mér í þeim íþróttum sem ég æfi. Leikirnir eru á ýmsum tímum en oft um helgar. Ég hef æft þrjár íþróttir síðan ég var um 6 ára svo ég þekki ekki annað. Stundum rekast æfingar og leikir á en þjálfararnir hafa sýnt því skilning. Annars gengur þetta yfirleitt mjög vel og lítið sem íþróttirnar skarast á.

Ég fæ oft spurningar hvort þetta sé ekki of mikið fyrir mig en ég þekki ekkert annað. Mér finnst þetta spila allt vel saman. Hver íþrótt hefur sinn eiginleika sem hjálpar þá hinum en ég trúi því að einstaklinginn verði betri leikmaður fyrir vikið. Ég hef gaman að þessu og legg mig fram í hverri íþrótt sem ég æfi. Þegar þú hefur gaman að einhverju þá er þetta lítið mál.

Hvað er skemmtilegast við íþróttina?

„Að spila körfubolta er skemmtilegast, leikurinn sjálfur og auðvitað að skora körfur.“

Framtíðardraumarnir í íþróttinni?

„Draumurinn er auðvitað að komast í landsliðið og spila fyrir Íslands hönd. Í framhaldinu er draumurinn að komast erlendis í háskóla og spila þar.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem hefur gerst hjá þér í leik?

„Eftirminnilegast er þegar ég skoraði 52 stig í leik. Það var líka stór stund þegar ég fékk tækifæri til að spila með meistaraflokki ÍA.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan körfubolta?

„Ég elska líka að spila fótbolta og finnst gaman að æfa golf á sumrin. Fyrir utan íþróttirnar þá hef ég mikinn áhuga á að hlusta á tónlist.“

Staðreyndir:

Nafn: Aron Elvar Dagsson

Aldur: 14 ára

Skóli: Grundaskóli

Bekkur: 9.EV

Besti maturinn: Grjónagrauturinn hennar ömmu Petu

Besti drykkurinn: Kókómjólk

Besta lagið/tónlistin? Joclyn Flores eftir XXX Tentacion

Á hvað ertu að horfa þessa dagana? Horfi mjög lítið á sjónvarp, hef ekki mikinn tíma og því ekkert sérstakt sem ég era ð horfa á.

Ættartréð:
Dagur Þórisson 44 ára, Hjördís Dögg Grímarsdóttir 38 ára eru foreldrar mínir
Marinó ísak 11 ára er bróðir minn.

AuglýsingAuglýsing