Hrönn prýðir forsíðu Vikunnar – segir frá merkjum sem borist hafa frá Lovísu Hrund

AuglýsingHrönn Ásgeirsdóttir, móðir Lovísu Hrundar Svavarsdóttur, prýðir nýjustu forsíðu tímaritsins Vikunnar. Hrönn, sem er búsett á Akranesi, hefur á undanförnum árum unnið í því að endurbyggja líf sitt eftir Lovísa Hrund lést í hræðilegu slysi fyrir fimm árum.

Meðal þess sem Hrönn ræðir er reiðin sem hún ákvað að takast á við og verðlaunarannsókn hennar á gleymdum hópi í kerfinu; foreldrum sem missa börn af slysförum. Hún segir einnig frá merkjum sem henni hafa borist frá Lovísu Hrund sem sannfærðu hana um að til sé líf eftir þetta líf.

„Við vorum algjörar samlokur, vorum alltaf saman, hún var mín besta vinkona. Hún var svakalegur knúsari og var alltaf að finna upp á einhverju til að gleðja aðra.

Daginn sem hún lést knúsaði hún mig innilega í síðasta skiptið. Hún gekk á móti mér með útbreiddan faðminn og ég man að ég sagði við sjálfa mig að taka nú almennilega á henni, því það færi að styttast í að hún hætti að nenna þessu.

Við áttum mjög fallega stund, stóðum lengi og knúsuðumst, ég vaggaði henni fram og til baka. Svona var hún, alltaf að reyna að fá fólk til að líða vel. Allir sem þekktu hana tala um hana á sama hátt, og lýsa henni sem þessari einstöku, hlýju og góðhjörtuðu manneskju sem hún var. Enda varð svo mikil sorg í bænum þegar hún dó, samfélagið hér á Akranesi var sem lamað.

Það var líka hvernig þetta gerðist, þetta var svo ósanngjarnt,“ segir Hrönn m.a. í viðtalinu. Hún er þar að vísa til dagsins 6. apríl árið 2013

Lovísa Hrund var á leið heim frá vinnu, þegar ölvaður ökumaður úr gagnstæðri átt keyrði í veg fyrir bifreið hennar á Akrafjallsvegi. Lovísa Hrund sem var aðeins 17 ára gömul, lést samstundis.

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Hrönn, en viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

AuglýsingAuglýsing