Guðrún lætur verkin tala – formaður og gjaldkeri í tveimur íþróttafélögum

AuglýsingMér finnst gaman að vinna að félagsmálum. Íþróttafélögin eru mjög ólík sem ég tengist en félagsskapurinn er mjög skemmtilegur hjá þeim báðum,“ segir Skagakonan Guðrún Hjaltalín. Hún er mikilvægur hlekkur sem sjálfboðaliði í íþróttalífi Skagamanna – en Guðrún er forsvari hjá tveimur íþróttafélögum. Formaður í einu og gjaldkeri í öðru.

Guðrún segir í samtali við Skagafréttir að hún hafi alltaf haft áhuga á félagsmálum.

„Ég aðallega í foreldrafélögum tengdum leikskólum og grunnskólum barnanna. Var nú ekki mikið í íþróttum þegar ég var yngri hér á Akranesi. Ég æfði handbolta meðan hann var stundaður á Akranesi og ég var í fótbolta í eitt eða tvö sumur. Mér fannst gaman að fótbolta og fór á marga leiki þegar ég var unglingur.“

Guðrún er formaður Skotfélags Akraness og gjaldkeri í Vélhjólaíþróttafélag Akraness. Guðrún segir að það hafi ekki verið á markmið í sjálfu sér að taka þessi hlutverk að sér.

„Maðurinn minn, Björn Gústaf Hilmarsson, dró mig með sér í motocrossið árið 2009. Við vorum mikið í Akrabrautinni og árið 2013 tók ég að mér að vera gjaldkeri félagsins. Ég ætlaði bara að vera gjaldkeri í eitt að tvö ár. Ég er enn í þessu hlutverki.“

Skotfimiíþróttina byrjaði Guðrún að stunda fyrir tæplega fjórum árum í dag er hún formaður félagsins.

„Ég byrjaði að stunda skotfimi (skeet) fyrir fjórum árum ásamt Birni. Ég fór að keppa og fannst þetta skemmtileg íþrótt. Það kom sú staða að formaður félagsins gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Ég fékk ósk um að bjóða mig fram og ég gerði það og í dag er í formaður félagsins.“

Guðrún segir að það sé skemmtilegt og lærdómsríkt að taka að sér slík verkefni.

„Það er alltaf nauðsynlegt að fara út fyrir þægindaramman af og til. Ég hef líka oft skoðun á hlutunum og læt það í ljós. Ég veit ekki alveg hvort það sé alltaf kostur. En fyrst og fremst finnst mér gaman að vinna í félagsstörfum. Þetta eru eins og áður segir ólík félög. Félagsskapurinn í báðum þeirra er mjög skemmtilegur.“

Sjálfboðaliðar líkt og Guðrún eyða töluverðum tíma í félagsstörfuin en Guðrún segir að það sé ekki vandamál.

„Það fer vissulega tími í þetta en mér finnst þetta gefani. Það er mest að gera um áramót þegar líður að aðalfundum félaganna, Formannafundir eru á dagskrá af og til. Það þarf að skipuleggja ýmislegt og það fer alltaf einhver tími í þetta í hverri viku.“

Guðrún stundar skeet íþróttina og hún hefur m.a. keppt á alþjóðlegum mótum.

„Ég hef stundað báðar íþróttirnar. Ég er aðallega í skotfiminni á sumri og næ að keppa af og til á mótum.

Undanfarin tvö sumur hef ég verið úti á Grænlandi í júlí og ágúst – það hefur því ekki verið tími til að gera mikið. Síðasta sumar fór ég ásamt þremur öðrum íslenskum konum að keppa á Ladies International Grand Prix.

Það er opið skeet mót fyrir konur og gaman að nefna það að næsta sumar verður það haldið hér á Íslandi og ég tek þátt í því að skipuleggja það.

Við erum ekki margar konur sem erum að stunda þessa íþrótt. Vonandi fara fleiri að taka þátt.

Ég er til dæmis ein hér á Akranesi væri til í að sjá fleiri koma í félagið að æfa, því þessi íþrótt er fyrir alla á öllum aldri,“ segir Guðrún en hún hefur lagt motocross íþróttina á hilluna tímabundið vegna tímaleysis.

„Í huganum er ég alltaf á leiðinni upp í Akrabraut að hjóla – enda er hjólið klárt úti í bílskúr.“

Ættartréð:

„Ég er fædd og uppalin á Akranesi. Ég bjó hér til 18 ára aldurs en flutti þá í burtu en kom aftur á Skagann árið 2008. Foreldrar mínir eru Guðjón Sólmundsson og Sigríður Karen Samúelsdóttir.  Systkini mín heita Rannveig Björk, Karen Ösp og Samúel Þór.  Ég er í sambúð með Birni Gústafi Hilmarssyni sem á tvö börn. Ég á 5 börn og barnabörnin eru alls fimm. Börnin mín heita Sólmundur Hjaltalín, Helga Maren, Karítas Mist, Aron Sædal og Ragna Sól. Ég vinn hjá Norðurál á starfsmannasviði er búin að starfa þar síðan vorið 2011.“ segir Guðrún Hjaltalín.

  

AuglýsingAuglýsing