Valdís Þóra byrjar tímabilið í Abu Dhabi – ferðast heimsálfa á milli á árinu 2019

Auglýsing



Keppnistímabilið sem er framundan hjá Valdísi Þóru Jónsdóttur á LET Evrópumótaröðinni einkennist af miklum ferðalögum og nýjum viðkomustöðum, 

Skagakonan Valdís Þóra úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi, hefur keppnistímabilið á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í næstu viku. 

Fatima Bint Mubarak Ladies Open á LET Evrópumótaröðinni fer fram í Abu Dhabi dagana 10.-12. janúar.  

Keppnisdagskrá LET Evrópumótaraðarinnar 2019 liggur nú fyrir og er hægt að nálgast allar upplýsingar um mót ársins með því að smella hér

Fatima Bint Mubarak Ladies Open verður jafnframt fyrsta mótið á LET Evrópumótaröðinni þar sem leikið er eftir nýjum golfreglum sem tóku gildi í byrjun þessa árs.

Eftir mótið í Abu Dhabi tekur við keppnistörn í Ástralíu þar sem að þrjú mót fara fram í lok febrúar og byrjun mars. Valdís Þóra á góðar minningar frá Ástralíu en þar náði hún sínum besta árangri fyrir ári síðan – með því að enda í þriðja sæti. Þar jafnaði hún sinn besta árangur á LET Evrópumótaröðinni og er það besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á mótaröð í efsta styrkleikaflokki á atvinnumótaröð.

Eftir törnina í Ástralíu verður haldið til Suður-Afríku þar sem keppt verður um miðjan marsmánuð.

Í byrjun apríl verður nýtt keppnisfyrirkomulag á móti sem fram fer í Jórdaníu. Þar keppa konur og karlar um verðlaunaféð og sigurinn í mótinu. Þar mæta til leiks kylfingar frá LET Evrópumótaröðinni og einnig karlkylfingar frá Áskorendamótaröð Evrópu og Staysure mótaröðinni sem er mótaröð eldri kylfinga. Þar verður boðið upp á nýjungar í keppnishaldi og þar á meðal er liðakeppni.   

Í lok apríl verður sameiginlegt mót hjá LET Evrópumótaröðinni og Evrópumótaröð karla í Marokkó.

Í byrjun maí verður mót í Dubaí og þar verður m.a. keppt eftir að sólin sest en á Emirates Golf Club eru flóðljós til staðar sem lýsa upp völlinn í myrkrinu. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkt verður reynt á LET Evrópumótaröðinni.

Fjölmörg mót fara fram í Evrópu þegar hitastigið hækkar í álfunni á vormánuðum.

Eitt mót fer fram í Taílandi um miðjan júní og í október verður leikið á Indlandi.

Lokakafli LET Evrópumótaraðarinnar fer fram á Spáni í lok nóvember.

 

Auglýsing



Auglýsing