Hulda upplifir nýtt ævintýri Noregi – spennandi tímar framundan

Auglýsing„Hugmyndin kom upp í júní í fyrra, ég fór í júlí að skoða húsnæði og við fluttum í september. Þetta gerðist mjög hratt en við erum ánægð með niðurstöðuna,“ segir Skagakonan Hulda Margrét Brynjarsdóttir við Skagafréttir sem er nú búsett í Hönefoss í Noregi ásamt sambýlismanni sínum og tveimur dætrum þeirra.

Hulda Margrét situr ekki auðum höndum í Noregi en hún skrifaði nýverið undir samning hjá knattspyrnuliði Hönefoss sem mun leika í næst efstu deild þar í landi.

Hulda Margrét hefur leikið knattspyrnu með ÍA frá því hún var barn en hún er 26 ára gömul og stundaðar 50% háskólanám samhliða því að vera í fæðingarorlofi.  En eins og allir vita stendur það orlof alls ekki undir væntingum – að ala upp barn er ekkert frí eða orlof.

Aðspurð segir Hulda Margrét að ævintýraþráin hafi leikið stórt hlutverk í því að rífa sig upp frá Akranesi. Sigursteinn Orri Hálfdánarson er sambýlismaður Huldu en hann er í vinnu í Hönefoss.

„Við mátum stöðuna þannig að það væri tækifæri að fara erlendis og upplifa eitthvað nýtt samhliða því að stunda nám og vinnu. Ég er í 50% háskólanámi, eldri stelpan okkar er 50% í leikskóla en að öðru leyti er ég með báðar stelpurnar okkar heima.  Það var stærsti kosturinn að okkar mati, ég get verið með þeim mikið heima, í stað þess að koma þeim í vistun. Eldri stelpan okkar er í leikskóla hálfan daginn og hún mun án efa læra norskuna betur á undan okkur.“

Eins og áður segir ætlar Hulda Margrét að leika með liði Hönefoss í næst efstu deild í Noregi á næstu leiktíð.

„Ég vildi komast inn í samfélagið og að vera hluti af fótboltaliði er góð leið til þess. Ég mun læra tungumálið með því að vera í kringu norsku fótboltakonurnar.“

Hulda náði að kynnast norska fótboltanum s.l. haust þar sem hún lék tvo leiki með HBK í 2. deildinni.

„Það hefur gengið vel hjá HBK eða Hönefoss undanfarin ár. Liðið var í 4. deild fyrir fjórum árum og er nú í 1. deild. Liðið var stofnað fyrir fimm árum og það hefur því margt gerst á stuttum tíma.

Hér í Hönefoss þykir það stórfrétt hversu vel liðinu hefur gengið og í raun er mjög vel fylgst með liðinu í allri sýslunni, Ringerike.

Það kom mér á óvart hversu lítill stuðningur er við liðið – miðað við það sem ég hef kynnst á Íslandi.“

Keppnistímabilið hefst þann 13. apríl og það er að sjálfsögðu besti dagur ársins að mati Huldu. „ Ég á afmæli á þessum degi en fram að því verð ég á fullu að koma mér í stand fyrir tímabilið. Tímabilið verður án efa krefjandi en vonandi næ ég að spila sem mest.

Ég ætla samt sem áður að setja fjölskylduna í forgang, dætur okkar eru það ungar, að ég get ekki gert allt sem ég vil. Ferðalögin eru löng í þessari deild. Við þurfum stundum að fara í keppnisferðir norður í land sem tekur tvo daga. En ég hlakka til og þetta verður án efa skemmtileg upplifun.“

 

Ættartréð:

Hulda Margrét Brynjarsdóttir er fædd árið 1993 og hún á tvær dætur sem heita Emilía Ósk Sigursteinsdóttir (fædd í júní 2016) og Andrea Karen Sigursteinsdóttir (fædd maí 2018).

Sambýlismaður Huldu Margrétar er Sigursteinn Orri Hálfdánarson.

Foreldrar Huldu eru Þyrí Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Brynjar Sæmundsson, golfvallasérfræðingur og framkvæmdastjóri GrasTec.

AuglýsingAuglýsing