Anna Helgadóttir er grjóthörð í þríþrautinni

Auglýsing„Þríþrautin vakti fyrst áhuga hjá mér og forvitni þegar ég hitti fyrir spengilega miðaldra þríþrautakappa, konur og karla á mínu reki, sem voru að keppa á Garpasundmótum,“ segir  Skagakonan Anna Helgadóttir keppti fyrir skemmstu í Járnmanni eða Ironman á framandi slóðum.

Í þessari íþróttagrein er keppt í þríþraut, sundi, hjólreiðum og hlaupi. Keppnin fór fram á Nýja-Sjálandi og var eins og gefur að skilja mikið ævintýri.

Anna er fædd árið 1968 og uppalin á Akranesi. Hún er dóttir hins þekkta knattspyrnukappa, Helga Björgvinssonar, sem var fæddur árið 1934 en hann lést í fyrra. Móðir hennar er Ingibjörg Sigurðardóttir (f.1940) og systkini Önnu eru: Ása (f.1961), Hannes Jón (f.1962) og Helga Björg (f.1970). Það hefur margt áhugavert gerst í lífi Önnu frá því hún flutti frá Akranesi rúmlega tvítug að aldri og í dag er hún með Doktorspróf og starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Rannsakar hjarta – og æðasjúkdóma

„Ég fór í Brekkubæjarskóla eins og aðrir Skagamenn á þeim tíma. Ég útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 1987 og ári síðar flutti ég til Reykjavíkur til að stunda nám í læknisfræði. Ég útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 1996.  Eftir kandidatsár á Landspítalanum starfaði ég í allmörg ár við erfðarannsóknir hjá Íslenskri erfðagreiningu. Á sama tíma var ég einnig í doktorsnámi við HÍ og lauk doktorsprófi (Ph.D.) 2008. Doktorsritgerðin fjallaði um erfðir kransæðastíflu,“ segir Anna en sambýlismaður hennar er Kristján Sigurðsson húsasmiður og börnin þeirra eru tvö, Maríanna (1993) og Marinó (1997). 

„Við fluttum árið 2008 út til Oxford á Englandi þar sem ég vann við erfðarannsóknir við Oxford Háskóla í 2 ár. Meðfram vinnu tók ég Masters gráðu (MS) í faraldursfræði við London School of Hygiene and Tropical Medicine. Ég tók sem sagt doktorsprófið á undan mastersprófinu, en vanalega er mastersprófið tekið á undan. Í dag starfa hjá Íslenskri erfðagreiningu við rannsóknir á hjarta-og æðasjúkdómum.“


Úr sundinu í þríþrautina

Það var vinnufélagi Önnu sem vakti athygli hennar á þríþrautinni. Hann heitir Viðar Bragi Þorsteinsson, og er einn fremsti þríþrautarkappi landsins. „Ég byrjaði að æfa þríþraut haustið 2013. Ég æfi með Þríþrautardeild Breiðabliks-ÞRÍKÓ.  Áður en ég byrjaði í þríþrautinni hafði ég stundað sund mér til heilsubótar.

Ég var um þrítug þegar ég skellti mér fyrst á sundæfingu með fullorðnum sundgörpum í Grafarvogi. Lengi vel stundaði ég líka sund með nokkrum sund-vinkonum mínum. Þá hittumst við 2-3 sinnum í viku og syntum heimatilbúnar sundæfingar saman.

Ein úr þessum sundhópi er Elín Viðarsdóttir, gömul sundkempa af Skaganum. Við vorum duglegar að keppa á Garpamótum og kepptum til dæmis á Norðurlandameistaramótum í garpasundi í Svíþjóð og Danmörku. Mig minnir að það hafi verið Ella Viðars sem hafi upphaflega komið okkur hinum á bragðið að keppa í sundi.


Kynningarefni


Áður en ég byrjaði í þríþrautinni hafði ég aldrei æft hlaup né hjól, en þó komu einhver tímabil þar sem ég reyndi að hlaupa reglulega, en aldrei með keppni í huga. Ég var aldrei góð í hlaupi og fannst í raun ekkert sérstaklega gaman að hlaupa. Á þessum tíma fannst mér svakalega gott ef ég hljóp ca. 3 km þrisvar sinnum í viku.“


Keppnisreynslan fer vaxandi

Anna keppti í fyrra í hálfum jármanni í Samorin í Slóvakíu og hún hefur heldur betur aukið við kílómetrana í hlaupunum.

„Það var nokkuð stór hópur Íslendinga sem fór í þá keppni. Keppnisferill minn í járnmanninum er ekki langur. Ég hef þrisvar keppt í Hvalfirðinum, þar sem synt er í Meðalfellsvatni (1,9 km.), hjólað 90 km. í Hvalfirði og að lokum er hlaupið meðfram Meðalfellsvatni (21,1 km.). Mér hefur gengið betur með sundið og hjólreiðahlutann, en hlaupið er veikasta greinin hjá mér,“ segir Anna en hún hefur bætt sig jafnt og þétt á því sviði.


„Ég hef keppt í tveimur maraþonhlaupum (42,2 km.). Fyrst í Moskvu árið 2015 og í Amsterdam árið 2016. Moskvu-maraþonið var sérstaklega eftirminnilegt. Mér fannst mjög sérstakt hversu margir lögreglumenn vörðuðu hlaupabrautina, stóðu teinréttir og í fullum skrúða. Það var frábært að hlaupa framhjá áhugaverðum og fallegum stöðum í Moskvu.“

Risavaxið verkefni á Nýja-Sjálandi

Eins og áður segir keppti Anna í Járnmanni eða Ironman á Nýja-Sjálandi á dögunum. Það er risavaxið verkefni svo ekki sé meira sagt. Anna var í rétt tæplega 14 tíma að klára verkefnið.

Við þríþrautarvinkonurnar erum báðar fimmtugar á árinu.

Við vildum gera eitthvað sérstakt saman á árinu að í tilefni af því.„Undirbúningurinn fyrir þessa keppni stóð yfir í þrjá mánuði. Æfingamagnið er mikið í þessu prógrammi sem við æfðum eftir. Tímasetning keppninnar á Nýja-Sjálandi gerði það að verkum að aðstæður á Íslandi voru ekki eins og best verður á kosið við æfingar Það getur verið erfitt að taka langar hlaupaæfingar úti í öllum veðrum og oft var maður að hlaupa í talsverðum snjó og hálku í vetur. Vegna veðurs þurfti maður líka að taka vikulegar 4-5 klukkutíma hjólaæfingarnar inni, en það er andlega mun erfiðara en þegar maður getur æft úti yfir sumartímann.

„Í Ironman keppni er byrjað á því að synda 3.8 km annað hvort í vatni eða sjó, síðan eru hjólaðir 180 km. og strax að því loknu tekur við heilt maraþon eða 42,2 km hlaup. Á Nýja Sjálandi var synt í kristaltæru vatni (Lake Taupo). Hitastig vatnsins var mjög þægilegt, líklega í kringum 18 gráður, en synt er í blautbúning. Við vorum tvær konur frá Íslandi sem kepptum í Ironman New Zealand. Ég og Guðrún Björk Geirsdóttir, sem hefur æft þríþraut í svipað langan tíma og ég.

Við þríþrautarvinkonurnar erum báðar fimmtugar á árinu og við vildum gera eitthvað sérstakt saman á árinu að í tilefni af því,“ segir Anna en hún var í 13 klukkutíma og 46 mínútur að klára keppnina. „Við vorum með gott klapplið og aðstoðarmenn því makar okkar voru með í klappliðinu. Eftir keppnina skoðuðum við okkur um á Nýja-Sjálandi, sem er gríðarlega fallegt land.“

Við erum allavega búnar með Eyjaálfuna!

Anna og Guðrún Björk eru rétt að byrja þríþrautarferilinn enda eru þær á besta aldri. „Ég sko aldeilis ekki hætt í þríþrautinni. Við ætlum að keppa í hálfum og heilum Ironman á næstu tveimur árum. Og í ferðinni til Nýja-Sjálands fengum við þríþrautarvinkonurnar þá flugu í hausinn að stefna á að klára eina Járnmanns-keppni í hverri heimsálfu fyrir sextugt! Við erum allavega búnar með Eyjaálfuna,“ sagði Anna Helgadóttir við skagafrettir.is

Frá Ironman keppninni á Nýja-Sjálandi 2018.

Frá Ironman keppninni á Nýja-Sjálandi 2018.

AuglýsingAuglýsing