Bjarni tekur við sem forstjóri hjá Iceland Seafood

AuglýsingSkagamaðurinn Bjarni Ármansson er nýr forstjóri hjá Iceland Seafood International.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá ISI.

Bjarni hefur verið stjórnarformaður ISI frá því í september 2018 en stígur nú úr stjórninni og tekur við starfi Helga Antons Eiríkssonar sem hefur óskað eftir því að stíga til hliðar eftir níu ár í forstjórastól.

Bjarni fyrrverandi forstjóri Glitnis en hann hefur á undanförnum árum verið virkur fjárfestir í mörgum atvinnugreinum.

Þar má nefna að hann á Tandur ehf. og einnig á hann stóra hlut í skórisanum S4S sem rekur m.a. skóverslanirnar Steinar Waage, Ecco, Skór.is, Kaupfélagið, Toppskórinn og Air.is í Smáralind.

Sjá einnig: Bjarni Ármannsson kominn í hreinlætisvörubransann

Haft er eftir Bjarna í tilkynningu að félagið standi fjárhagslega sterkt eftir öfluga leiðsögn Helga Antons og færir Bjarni honum þakkir fyrir það mikla starf sem hann hefur innt af hendi við uppbyggingu félagsins.

„Fram undan eru spennandi tímar hjá Iceland Seafood International. Félagið hyggur á skráningu á aðalmarkað Kauphallar Íslands á þessu ári. Hjá félaginu starfa 630 starfsmenn í níu dótturfélögum, mestmegnis í Evrópu. Sú mikla þekking og reynsla sem teymi ISI búa yfir, víðsvegar um heim, er það sem gerir fyrirtækið vel í stakk búið til áframhaldandi vaxtar. Það er spennandi að leiða þennan góða hóp inn í þau mikilvægu verkefni sem fram undan eru og hlakka ég til þess.”

Þá segist fráfarandi forstjóri, Helgi Anton, þakklátur fyrir ár sín sem forstjóri ISI en hann telji þetta rétta tímapunktinn til að stíga til hliðar og horfa til nýrra tækifæra.

Bjarni Ármannsson fæddist á Akranesi 23.3. 1968 og ólst þar upp í foreldrahúsum. Hann var í Grunnskóla Akraness, lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands, lauk prófi í tölvunarfræði við HÍ, stundaði nám í verðbréfamiðlun við HÍ, nám við Institut for Management Development í Lausanne í Sviss og lauk þaðan MBA-prófi í fyrirtækjastjórnun og viðskiptafræðum 1996.

Á unglingsárum og námsárunum stundaði Bjarni almenn verkamannastörf á Akranesi og var til sjós á togurum frá Akranesi.

Bjarni varð forstjóri Kaupþings í ársbyrjun 1997 og bankastjóri Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í ársbyrjun 1998. Hann varð síðan bankastjóri Íslandsbanka og síðar Glitnis til 2007 þegar hann lauk störfum í fjármálageiranum.

Á síðastliðnum áratug hefur Bjarni verið atvinnufjárfestir hér á landi og erlendis. Þá hefur hann gegnt ýmsum trúnaðarstörfum er tengst hafa starfi hans.

AuglýsingAuglýsing