Skagamaðurinn Davíð Þór verðlaunaður fyrir tónlistina í „Kona fer í stríð“Skagamaðurinn Davíð Þór Jónsson stóð uppi sem sigurvegari við afhendingu Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunanna 2019 í Berlín í dag.

Verðlaunin hlýtur Davíð fyrir tónlist sína í kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð. Þetta kemur fram á RÚV.

Þetta í níunda sinn sem verðlaunin eru veitt. Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin bera heitið Harpa og eru veitt árlega einu tónskáldi frá Norðurlöndum.

Davíð Þór er  á meðal fjölhæfustu tónlistarmanna landins, jafnvígur á píanóleik, spuna, tónsmíðar og hljómsveitarstjórn auk þess sem hann leikur á ógrynni hljóðfæra.

Hann hefur leikið með flestum tónlistarmönnum landsins og spilað á tónlistarhátíðum um allan heim.

Davíð Þór Jónsson er fæddur á Seyðisfirði 27. júní 1978. Foreldrar hans eru þau Jenný Ásgerður Magnúsdóttir listakona, húsfreyja og skautritari og Jón Þórir Leifsson vélsmiður og lögreglumaður. Davíð á þrjá bræður, Daníel, Leif og Arnar.

Mosfellsbær útnefndi Davíð Þór bæjarlistamann Mosfellsbæjar 2017.

Ítarlegt viðtal var við Davíð Þór í hinu frábæra fréttablaði Mosfellingi á þeim tíma.  

Hér er brot úr því viðtali:

Ég flutti frá Seyðisfirði til Akraness þegar ég var þriggja ára gamall. Þegar ég hugsa til æskuáranna á Skaganum þá er það brimið við Traðarbakkakletta, rauðmagi, hrogn og lifur, mamma syngjandi og þríhjólareiðtúr á Kothúsatúninu sem stendur upp úr.

Frá unga aldri sinnti ég heimilis- og ­bústörfum ásamt því að leggja net með föður mínum.

Ég fékk að vera frjálst barn þar sem ég gat leikið lausum hala um götur og fjörur bæjarins. Ég fór líka mörg sumur í sveit í Andakíl í Borgarfirði og átti það mjög vel við mig í alla staði. Ég gekk í Brekkubæjarskóla og fór þaðan í Fjölbrautaskóla Vesturlands.“

Davíð Þór Jónsson var viðstaddur verðlaunaafhendinguna auk leikstjórans Benedikts Erlingssonar og annarra fulltrúa kvikmyndarinnar, Kona fer í stríð. Sendiherra Íslands í Berlín, Martin Eyjólfsson, setti hátíðina.

Davíð Þór var tilnefndur til verðlaunanna af STEFi fyrir Íslands hönd og segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar að tónlist Davíðs Þórs spili mikilvægt og frumlegt hlutverk í myndinni. Davíð enduruppgötvar hina klassísku grísku harmleiki Evripídesar og Sófóklesar og heimfærir á smekklegan hátt uppbyggingu myndarinnar. Sú nálgun sé í senn þýðingarmikil og tilfinningalega stór hluti frásagnarinnar. Aukinheldur er aðalpersóna myndarinnnar kórstjóri og undirstrikar hvernig tónlistin er rauður þráður í gegnum myndina.

AuglýsingAuglýsingAuglýsingAuglýsingAuglýsingAuglýsing