Skagamaðurinn Guðjón Þórðarson fór vel af stað í sínum fyrsta deildarleik sem þjálfari NSÍ frá Runavík í Færeyjum.
Deildarkeppnin hófst í dag í Færeyjum. NSÍ frá Runavík vann EB/Streymi 1-0 á heimavelli.
Þetta var fyrsti leikur Guðjóns sem þjálfari eða „venjari“ eins og sagt er í Færeyjum í deildarkeppni frá árinu 2012 þegar hann stjórnaði Grindavík í Pepsideildinni.
Guðjón skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í nóvember á síðasta ári. NSÍ Runavík varð í öðru sæti í færeysku deildarkeppninni á síðustu leiktíð.
Guðjón er 63 ára gamall og hann þjálfaði síðast á Íslandi árið 2012.
NSÍ er frá Runavík, 4.000 manna bæ á Austurey, en liðið hafnaði í öðru sæti færeysku úrvalsdeildarinnar í ár, 18 stigum á eftir meistaraliði HB. NSÍ hefur einu sinni orðið færeyskur meistari, árið 2007, en það varð bikarmeistari í þriðja sinn 2017.
Guðjón Þórðarson er einn reyndasti þjálfari Íslands. Undir hans stjórn varð ÍA þrívegis Íslandsmeistari í karlaflokki, 1992, 1993 og 1996. KA frá Akureyri varð Íslandsmeistari undir stjórn Guðjóns árið 1989. Bikarmeistaratitlarnir eru fjórir hjá Guðjóni. ÍA varð bikarmeistari 1993 og 1996. Árið 1994 og 1995 gerði hann KR að bikarmeisturum.
Guðjón var þjálfari íslenska landsliðsins á árunum 1997-1999. Hann tók síðan við enska liðinu Stoke City og þjálfaði einnig Barnsley, Notts County og Crewe á Englandi. Hér á landi hefur hann m.a þjálfað ÍA, KA, Keflavík og Grindavík.
Auglýsing
Auglýsing