Menningarlífið á Akranesi heldur áfram að blómstra. Næsta stóra verkefnið sem sýnt verður á fjölum Bíóhallarinnar er söngleikur sem nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi hafa æft af krafti í vetur.
Um er að ræða verkið „Rock Of Ages“ sem er kraftmikill Brodway söngleikur eftir Chris D’Arienzo.
Rock Of Ages hefur bæði verið kvikmynduð og sýnd í leikhúsum um víða veröld.
Sýningin er ein sú stærsta og umfangsmesta sem FVA og Bíóhöllin hafa sett upp.
Og að sjálfsögðu er verkefnið unnið í samvinnu við Tónlistarskóla Akraness.
Fyrstu sýningarnar eru á dagskrá 22. og 23. mars.
Fjöldi duglegra nemenda kemur að sýningunni með ýmsum hætti. Þar má nefna gerð leikmyndar, tæknimál, leikskrá, förðun, búningar svo fátt eitt sé nefnt.
Hljómsveitin hefur æft stíft undir handleiðslu kennara og söngvarar hafa einnig fengið góða leiðsögn að undanförnu.
Sýningin býður upp á allan tilfinningarússíbanan og er stanslaus skemmtun sem enginn má missa af,“ segir í tilkynningu frá leikhópnum.
Söngleikurinn Rock Of Ages gerist í Los Angeles um miðjan níunda áratug síðustu aldar, þar sem aðal atriðið var að vera með sæmilegt magn af hári, góðan drykk í hönd og stóra drauma, allt er mögulegt.
Allskyns fólk gengur um götur The Sunset strip, allt frá þýskum bræðrum í viðskiptahugleiðingum til stærstu rokkstjörnu heims.
Auglýsing
Auglýsing