Hannes hefur áhyggjur af stöðu sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni

Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands, sem er búsettur á Akranesi setti í dag ársþing KKÍ.

Í ræðu sinni kom Hannes víða við en hann hefur miklar áhyggjur af stöðu sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni.

„Eitt af því sem gerir starf sjálfboðaliðans enn erfiðara í dag er neikvæð samfélagsmiðlaumræða,“ sagði Hannes m.a. í ræðu sinni.

Sjálfboðaliðinn gefst upp og fær nánast „upp í kok“

Það er ofmikið um neikvæða umræðu og oft á tíðum ljót og persónuleg skrif á sumum miðlum og svo einnig í athugasemdarkerfum miðlanna.

Ræðuna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. 

Kæru þingfulltrúar, kæru vinir.

Ég býð ykkur öll velkomin hingað í Laugardalinn á 53. Körfuknattleiksþingið og hlakka mikið til að vera með ykkur hér í dag að fjalla um framtíð körfuboltans sem okkur öllum þykir vænt um og viljum að haldi áfram að dafna vel í íslensku íþróttalífi um ókomna framtíð.

Ég hef velt því fyrir mér undanfarna daga hvað ég ætli ræða hér í setningarræðu minni í dag. Það er ýmislegt sem mig langar að koma inn á og fara yfir.

Það sem hefur verið mér ansi hugleikið undanfarið er staða sjálfboðaliðans og þær miklu kröfur sem gerðar eru til þess öfluga fólks sem velur það að koma og starfa fyrir körfuboltann og efla á allan þann hátt sem það getur. Það eru svo miklar kröfur gerðar í dag til hinns almenna sjálfboðliða. Þeir sem starfa í sjálfboðaliðastörfum fyrir íþróttahreyfinguna eiga nánast að kunna allt og vera viðbúinn öllu sem uppá getur komið innan félagsins. Ég hef rætt þetta töluvert við forráðamenn annarra sérsambanda og eru þau á sama máli og ég í þessum efnum. Við höfum áhyggjur af þeirri þróun sem er í gangi í núna, það er erfiðara og erfiðara að fá sjálfboðaliða til starfa innan íþróttahreyfingarinnar.

 

Það er of algengt að til dæmis stórar sem smáar körfuknattleiksdeildir séu reknar af örfáum einstaklingum, stundum kannski bara tveimur aðilum. Það sjá allir að það gengur ekki upp til lengdar. Sjálfboðaliðinn gefst upp og fær nánast „upp í kok“. Kemur ekki inn í íþróttahús aftur nema tilneyddur.

Íþróttahreyfingin er stærsta fjölda- og sjálfboðaliðahreyfing landsins og að sjálfsögðu endurspeglum við samfélagið okkar þar og þá kemur samfélagsmiðlaumræðan uppí huga mér.

Eitt af því sem gerir starf sjálfboðaliðans enn erfiðara í dag er neikvæð samfélagsmiðlaumræða. Það er ofmikið um neikvæða umræðu og oft á tíðum ljót og persónuleg skrif á sumum miðlum og svo einnig í athugasemdarkerfum miðlanna. Þarna eru nýjar hættur inn í sjálfboðaliðastarf íþróttahreyfingarinnar. Sjálfboðaliðar eru að starfa fyrir félögin sín og sitt samfélag með góðum vilja og í okkar tilfelli vinna að því að efla starfið í körfuboltanum. Sjálfboðaliðinn fær sjaldan eða aldrei þakkir fyrir sín óeigingjörnu störf. Hvernig haldið þið að það sé þá stundum að sjá og lesa óvægnar umræður í garð sjálfs síns og félagsins síns frá fólki sem sest við lyklaborðið og skrifar neikvætt og illa hugsaðan texta um félagið sem viðkomandi telur sig vera sannan félagsmann í. Ég get nánast lofað ykkur því að þessi einstaklingur sem situr við lyklaborðið og lét ýmislegt neikvætt frá sér hefur síðan ekki kjark að koma hreint fram og ræða þetta við félagið sitt og sjálfboðaliðann þar. Hvað þá að viðkomandi bjóði fram aðstoð sína og krafta að koma og aðstoða þegar stórir sem smáir viðburðir eru á vegum félagsins. Hér er ég alls ekki að tala um hina venjulegu gagnrýni á starf félagsins. Það er hollt að gagnrýna, rýna til gagns. Þannig eigum við alltaf að vinna og vera opinn fyrir málefnalegri gagnrýni, þannig verðum við betri, íþróttin okkar betri og félagið okkar verður betra.

Það er mjög gaman að vera sjálfboðaliði og taka þátt i starfi körfuboltans. Sjálfboðaliðinn er mikilvægur fyrir okkar frábæru íþrótt. Við þurfum á öllum að halda og félögin eiga að taka vel á móti öllum þeim sjálfboðaliðum sem bjóða fram krafta sína. Við berum samfélagslega ábyrgð og hvað er betra en forvarnarstarf sem skilar sér beint út í þjóðfélagið. Ég hvet alla til að koma að starfi körfuboltans á einn eða annan hátt.

Eftir tvö ár þá fögnum við því að sambandið okkar verður 60 ára. Það er ótrúlegt fyrir mig sem stend hérna að segja þetta því ég man vel eftir því þegar við fögnuðum 40 ára afmælinu en þá kom út „biblía“ okkar körfuboltafólks, bókin „Leikni framar líkamsburðum“ sem ritstýrt var af Skapta Hallgrímssyni. Í þessari merku bók er farið yfir sögu körfuknattleiks á Íslandi til árins 2001 þegar sambandið fagnaði 40 ára afmæli. Margt hefur breyst á síðustu tuttugu árum frá því að bókin góða kom út. Körfuboltinn hefur vaxið gríðarlega , vinsældir íþróttarinnar margfaldast sem og öll starfsemi á vegum KKÍ stækkað ansi mikið. Í dag er körfubolti ein allra vinsælasta íþrótt landsins.

Ég er svo heppinn að hafa fengið að hitta marga þá sem tóku þátt í að stofna KKÍ fyrir 58 árum og ég fékk einnig tækifæri nokkrum sinnum þegar ég var um tvítugt að hitta Boga Þorsteinsson fyrsta formann KKÍ örfáum árum áður en hann lést. Baráttan fyrir stofnun KKÍ var nefnilega hörð og erfið. Stofnun KKÍ sem sérsambands mætti harðri andstöðu sumra íþróttagreina. Enn þann dag í dag leita ég í viskubrunn einstaklinga eins og Einsa Bolla, Kolbeins Páls, Jóns Eysteins, Dollu, Gunna Gunn og fleira góðs fólks þegar ég þarf á ráðleggingum að halda. Að hafa fengið tækifæri til að þekkja söguna okkar hefur verið mér ómetanlegt eftir að ég varð formaður. Við eigum að bera virðingu fyrir sögunni, fyrir þeim einstaklingum sem komu okkur áfram og á þann stað sem við erum í dag. Við eigum því að fagna 60 ára afmælinu okkar vel á árinu 2021 og vonast ég til að við getum haldið veglega upp á þann merka áfanga.

Landsliðsmálin eru mjög umfangsmikil í starfsemi sambandsins og við munum fara frekar yfir landsliðsmálin í skýrslu stjórnar hér á eftir. Ég verð nú samt hér í þessari setningarræðu að koma inná það sem hefur verið okkur hjá KKÍ afar hugleikið undanfarin ár. Okkur vantar heimili fyrir landslið Íslands í körfubolta, bæði til æfinga og keppni. Landsliðum okkar sem og annarra íþróttagreina vantar heimili, okkur vantar samastað til að vera á. Þetta gerir starfinu öllu og þá sérstaklega skipulagi mjög erfitt fyrir. Þetta á eftir að há íslensku íþróttalífi til framtíðar ef ekkert verður að gert í þessum málum núna. Þetta má alls ekki bíða lengur. Við viljum að tafarlaust verði farið í að finna lausn á þessu máli, ekki bara fyrir körfuboltann heldur sem flestar íþróttagreinar. Þetta er ekki “einkamál” boltagreinanna eins og mér hefur fundist umræðan stundum vera, þetta er málefni allrar íþróttahreyfingarinnar. Forysta ÍSÍ hefur okkar traust og okkar bakland í að fara í þetta mál af fullum þunga.

Fjárhagsstaða sambandsins hefur svo sannarlega verið erfið síðastliðin ár. Síðustu tvö ár hafa verið sérstakleg erfið og tekið vel á alla þætti starfseminnar. Árangur landsliða okkar var of hraður miðað við tekjur og flest okkar sem erum hér á þessu þingi þekkjum þá sögu. Mig langar að nota tækifærið hér og þakka öllum þeim sem hafa starfað fyrir sambandið á einn eða annan hátt sem og þeim fyrirtækjum sem við höfum átt í viðskiptum við fyrir þolinmæði og skilning á erfiðri fjárhagsstöðu okkar síðastliðin ár. Velvilji ykkar er svo sannarlega vel metinn og þakkarverður. Það er íþróttahreyfingunni mikilvægt að eiga öfluga fjárhagslega bakhjarla og það er ánægjulegt að samstarfsaðilar KKÍ vinni í mörg ár með sambandinu. Mikið er um að samningar eru endurnýjaðir aftur og aftur. Samstarfsaðilum KKÍ þakka ég fyrir gott og gæfuríkt samstarf. Að sjálfsögðu getum við bætt við okkur fleiri samstarfsaðilum og hvet ég stjórnendur fyrirtækja landsins að hafa samband við okkur við tökum fagnandi á móti ykkur.

Ég þakka ykkur öllum sem starfið í kringum körfuboltann hringinn í kringum landið fyrir ykkar duglegu og góðu störf sem eru svo sannarlega metin og tekið eftir.

Ykkur kæru þingfulltrúar sem eruð hér í dag þakka ég sérstaklega fyrir ykkar mikla fórnfúsa starf. Þið eruð leiðtogarnir í ykkar körfuknattleiksfélögum og hjá ykkur liggur mikil ábyrgð að fá fleiri að starfinu svo það haldi áfram að vaxa og dafna. Ég þakka ykkur einnig fyrir að gefa ykkur tíma til að vera hér með okkur í dag á þessu þingi og móta framtíð körfuboltans.

Ég þakka stjórn og starfsfólki ÍSÍ fyrir gott og ánægjulegt samstarf. Einnig vil ég þakka öðrum sérsamböndum og íþrótta- og héraðsbandalögum fyrir samstarfið undanfarin ár.

Félögum mínum og vinum í stjórn og nefndum þakka ég fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf og ósérhlífið starf fyrir KKÍ og körfuboltann í landinu. Samstarfsfólki mínu á skrifstofunni þakka ég fyrir einstakt samstarf og vináttu. Mig skortir í raun nógu sterk lýsingarorð til þess að koma því til skila hversu öflugt fólkið okkar í stjórn og á skrifstofu er. Það er körfuboltanum mikil gæfa að hafa gott fólk sem sinnir störfum sínum af eldmóði og alúð, alltaf með bros á vör með heildar hagsmuni körfuboltahreyfingarinnar að leiðarljósi.

Sigríði Ingu Viggósdóttur færi ég kærar þakkir fyrir góð og kraftmikil störf en hún lét af störfum a skrifstofunni í lok febrúar. Rúnari Birgi Gíslasyni sem hætti í stjórn haustið 2017 þakka ég gott og gæfuríkt samstarf.

Einnig langar mig hér á persónulegu nótunum að þakka fjölskyldu minni fyrir góðan stuðning og

hvatningu þegar á hefur þurft að halda, það er ómetanlegt.

Að síðustu færi ég Eyfa, Eyjólfi Þór Guðlaugssyni og Palla, Páli Kolbeinssyni, kærar og innilegar þakkir fyrir þeirra góðu störf og mjög svo gefandi, gagnrýnið og uppbyggjandi samstarf en þeir hafa nú ákveðið að hætta í stjórn sambandsins á þessu þingi. Þeir hafa nú samt lofað mér því að þeir eru ekkert hættir að vera í kringum okkur og mun ég halda áfram að trufla þá og leita ráða hjá þeim. Takk Eyfi, Takk Palli, þið eruð frábærir!!!

Að lokum vonast ég eftir starfsömu þingi þar sem við höfum heildarhagsmuni körfuboltans að leiðarljósi, 53. Körfuknattleiksþing er sett.

Áfram körfubolti!

Hannes S. Jónsson,
Formaður KKÍ