Skipstjóri í 40 ár: Gísli Runólfsson horfir bjartsýnn til framtíðar



„Ég er afskaplega sáttur við mitt hlutverk í lífinu og ég horfi bjartsýnn til framtíðar,“segir Skagamaðurinn Gísli Runólfsson í áhugaverðu viðtali sem Smári Geirsson skrifar og birt er á fésbókarsíðu Síldarvinnslunnar.

Skagafréttir fengu góðfúslegt leyfi til þess að birta viðtalið við Gísla. 

Gísli fagnar merkisáfanga á þessu ári en skipstjóraferill hans hófst fyrir 40 árum. Öll skipin sem Gísli hefur stýrt hafa borið sama nafnið; Bjarni Ólafsson.

Foreldrar Gísla voru þau Runólfur Hallfreðsson skipstjóri og síðar útgerðarmaður og Ragnheiður Gísladóttir.

Gísli var 10 ára gamll þegar hann fór í sína fyrstu sjóferð sem varð að sannkölluðu þriggja vikna ævintýri.

Ég ólst upp við sjóinn og það var alltaf gert ráð fyrir að ég færi á sjó – í reyndinni var ekkert val í þeim efnum. Ég fór í fyrsta sinn með pabba á sjóinn 10 ára gamall. Hann var þá með Jörund III og var að veiðum með ufsanót. Við veiddum eitthvað út af Garðskaga en meðan á veiðiferðinni stóð skall á verkfall og því var ekki unnt að landa hér á landi. Ákveðið var að sigla til Cuxhaven og selja aflann þar. Á leiðinni var komið við í Vestmanna í Færeyjum til að taka kost. Eftir löndun í Cuxhaven var kastað í síld við Shetlandseyjar. Þessi fyrsta sjóferð mín átti að taka eina helgi en við komum ekki heim fyrr en eftir þrjár vikur. Það má segja að þetta hafi verið góð eldskírn fyrir 10 ára strákpjakk. Oft eftir þetta fór ég með pabba á sjóinn og eftir að hann hóf útgerð byrjaði ég kornungur að vinna við bátinn. Öll fjölskyldan tók þátt í að þrífa bátinn og mála hann á sumrin auk þess sem hún sinnti fleiri verkum. Þetta var sannkölluð fjölskylduútgerð. Ég á tvo bræður og tvær systur og báðir bræðurnir fóru á sjóinn rétt eins og ég. Sigurjón var lengi stýrimaður á Bjarna Ólafssyni og Runólfur hefur verið skipstjóri á móti mér í ein 20 ár og hafði verið stýrimaður í nokkur ár þar á undan,“ segir Gísli m.a í viðtalinu sem má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Skipstjóri í 40 ár

Um þessar mundir eru liðin 40 ár frá því að skipstjóraferill Gísla Runólfssonar hófst. Gísli er Skagamaður og öll skip sem hann hefur stýrt hafa borið sama nafnið; Bjarni Ólafsson. Bjarni Ólafsson AK landaði kolmunnaafla á dögunum og að löndun lokinni settist tíðindamaður heimasíðunnar niður með Gísla í þeim tilgangi að spjalla um skipstjóraferilinn á þessum tímamótum.

Í fyrstu var spurt út í æskuna og fyrstu kynni af sjómennsku. „Ég er fæddur á Akranesi 1958. Foreldrar mínir voru Runólfur Hallfreðsson skipstjóri og síðar útgerðarmaður og Ragnheiður Gísladóttir kona hans. Ég ólst upp við sjóinn og það var alltaf gert ráð fyrir að ég færi á sjó – í reyndinni var ekkert val í þeim efnum. Ég fór í fyrsta sinn með pabba á sjóinn 10 ára gamall. Hann var þá með Jörund III og var að veiðum með ufsanót. Við veiddum eitthvað út af Garðskaga en meðan á veiðiferðinni stóð skall á verkfall og því var ekki unnt að landa hér á landi. Ákveðið var að sigla til Cuxhaven og selja aflann þar. Á leiðinni var komið við í Vestmanna í Færeyjum til að taka kost. Eftir löndun í Cuxhaven var kastað í síld við Shetlandseyjar. Þessi fyrsta sjóferð mín átti að taka eina helgi en við komum ekki heim fyrr en eftir þrjár vikur. Það má segja að þetta hafi verið góð eldskírn fyrir 10 ára strákpjakk. Oft eftir þetta fór ég með pabba á sjóinn og eftir að hann hóf útgerð byrjaði ég kornungur að vinna við bátinn. Öll fjölskyldan tók þátt í að þrífa bátinn og mála hann á sumrin auk þess sem hún sinnti fleiri verkum. Þetta var sannkölluð fjölskylduútgerð. Ég á tvo bræður og tvær systur og báðir bræðurnir fóru á sjóinn rétt eins og ég. Sigurjón var lengi stýrimaður á Bjarna Ólafssyni og Runólfur hefur verið skipstjóri á móti mér í ein 20 ár og hafði verið stýrimaður í nokkur ár þar á undan.“

En hvenær hófst hinn eiginlegi sjómannsferill ?

„Ég fór fyrst sem háseti árið 1975. Það var á fyrsta Bjarna Ólafssyni sem áður hafði borið nafnið Börkur, en útgerðarsaga föður míns hófst einmitt þegar sá bátur var keyptur árið 1972. Þarna var farið á síld í Norðursjóinn og auðvitað var það heilmikill skóli fyrir mig. Haustið 1974 fór ég síðan í Stýrimannaskólann og honum lauk ég 1978. Á meðan ég var í skólanum var ég öll sumur á sjónum og eins í öllum fríum. Pabbi hafði fest kaup á öðrum Bjarna Ólafssyni um áramótin 1977-1978 og þegar ég var kominn með stýrimannaprófið var ég ráðinn annar stýrimaður á hann. Ég fór austur til Neskaupstaðar þar sem báturinn lá í höfn og einmitt þegar ég var nýbyrjaður hætti fyrsti stýrimaðurinn þannig að ég færðist upp í hans stöðu. Þarna var semsagt pabbi skipstjóri á bátnum og ég fyrsti stýrimaður tvítugur að aldri en það þótti sumum dálítið ungt. Veturinn 1979 fórum við á loðnu en þá var pabbi orðinn veikur og þurfti fljótlega að fara í land. Fyrirvaralaust ákvað hann að láta mig taka kast út af Reykjanesi. Það drapst á vélinni í miðju kasti en allt fór samt vel. Hann hafði ekki minnst á það einu orði að hann væri að fara í land þegar hann lét mig kasta þarna en eftir kastið sagði hann mér frá því og hann hefði viljað sjá að ég réði við verkefnið áður en ég tæki við skipstjórninni.“

Hvernig gekk eftir að þú tókst við af föður þínum ?

„Það gekk merkilega vel. Við urðum með aflahæstu skipum á þessari loðnuvertíð og ég var bara sáttur við árangurinn. Í áhöfninni voru menn sem höfðu verið lengi með pabba á sjónum en eftir vertíðina hættu þeir allir. Þeir þoldu ekki að vera undir svona strákpjakki. Eftir þetta varð til ný áhöfn og ég hef verið afskaplega heppinn með mannskap í gegnum tíðina. Það er ekki hægt að ná góðum árangri í veiðum nema vera með góðan mannskap.“
Hefur útgerðin ávallt lagt megináherslu á uppsjávarveiðar ? „ Já, uppsjávarveiðarnar hafa ávallt verið númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur. Við vorum hins vegar lengi með skipið á rækjuveiðum á sumrin. Þegar loðnuveiðibannið reið yfir á árunum 1982-1983 var síðan farið á fiskitroll. Loðnuveiðar eru að mínu mati skemmtilegustu veiðarnar og reyndar hafa kolmunnaveiðar hin síðari ár verið býsna skemmtilegar. Annars er allt skemmtilegt þegar maður fær að fiska. Það er ágætt að veiða makrílinn og síldina en þær veiðar taka afar mikið tillit til vinnslunnar og oft erum við kallaðir í land með tiltölulega lítinn afla. Það fer svolítið í taugarnar á veiðimanninum en auðvitað er þetta skiljanlegt því öllu máli skiptir að fá sem mest verðmæti út úr aflanum.“

Nú stýrir þú fjórða bátnum sem ber nafnið Bjarni Ólafsson og guli liturinn á bátunum gerir það að verkum að það er tekið eftir þeim. Hefur nýr bátur alltaf þýtt framför ?

„Það er ýmislegt sem hefur breyst hvað varðar okkar útgerð. Það er rétt, nú gerum við út fjórða bátinn sem ber nafnið Bjarni Ólafsson og allir þessar bátar hafa reynst afar vel. Reyndar hafa þessir bátar alltaf orðið betri og betri og núverandi bátur, sem keyptur var árið 2015, er afar gott veiðiskip. Bátar útgerðarinnar hafa skorið sig nokkuð úr því þeir hafa verið gulir á litinn, en gulur litur er ekki algengur á fiskiskipum og þykir víst vera dálítið ópraktískur. Pabbi velti fyrir sér litnum á bátnum á sínum tíma og hann ráðfærði sig við kunningja sinn sem var listmálari. Kunninginn hafði þau áhrif að guli liturinn varð ofan á og núna er Bjarni Ólafsson eini guli báturinn í uppsjávarflotanum en í sannleika sagt er hræðilegt verkefni að láta gulan bát líta þokkalega vel út.“

Eignarhaldið á útgerðinni hefur tekið töluverðum breytingum. Er það ekki rétt ?

„Jú, á sínum tíma eignaðist SR hlut í bátnum. Sá hlutur var líklega um 10%. Þegar SR var síðan sameinað Síldarvinnslunni árið 2013 hófust samskipti okkar við Síldarvinnslumenn. Árið 2016, þegar báðir foreldrar mínir voru fallnir frá, eignaðist Síldarvinnslan stóran hlut í útgerðinni eða um 75%. Nú eigum við skipstjórarnir um 25% í útgerðinni á móti Síldarvinnslunni og í einu orði sagt hefur öll samvinna gengið frábærlega vel. Síldarvinnslan er traust og gott fyrirtæki sem er vel stjórnað og það er mikið happ fyrir okkur að hafa tengst því. Það er líka frábært fyrir uppsjávarskip að hafa alla aðstöðu í Neskaupstað. Við höfum lengi haft tengsl við staðinn en þau hafa eðlilega aukist mjög nú síðustu árin.“

Það hefur ýmislegt breyst á þessum 40 árum, er ekki svo?

„Jú, það hefur margt breyst og yfirleitt í jákvæða átt. Skip, veiðarfæri og allur búnaður hefur þróast og allt orðið sífellt betra og fullkomnara. Þessi 40 ár hafa verið fljót að líða. Það hefur ekkert stórvægilegt neikvætt átt sér stað á skipstjórnarferlinum og fyrir það ber að þakka. Það hefur ekkert gerst sem ástæða er til að skammast sín mikið fyrir. Ég er afskaplega sáttur við mitt hlutverk í lífinu og ég horfi bjartsýnn til framtíðar.“

Auglýsing



Auglýsing