Skaginn 3x og Frost lönduðu milljarðasamning í Rússlandi

Tæknifyrirtækin Skaginn 3X og Kælismiðjan Frost hafa landað samningi um hönnun, uppsetningu og innleiðingu á hátækni vinnslu- og kælibúnaði í risavaxinn frysti- og vinnslutogara fyrir rússneska útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Collective Farm Fishery by V.I. Lenin (RK Lenina).

Verðmæti samningsins hleypur á milljörðum íslenskra króna og er gerður í samvinnu við rússneska arm Nautic Knarr Maritime, sem er sameiginlegt markaðsfyrirtæki fyrirtækjanna Skagans 3X, Frosts, Brimrúnar, Naust Marine og verkfræðistofunnar Skipatækni.

„Við erum stolt af því að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í nútímavæðingu sjávarútvegs í Rússlandi, “ segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri Skagans 3X á svæðinu. „Skipið er það stærsta sinnar tegundar í Rússlandi í 30 ár og framleiðslugetan um borð er 50% meiri en í öðrum sambærilegum rússneskum skipum.“

Áætlað er að skipið, sem er í smíðum í Yantar-skipasmíðastöðinni í Kalíníngrad, verði fullbúið og tilbúið til afhendingar í árslok 2022.
Verkefnið er liður í stefnu rússneskra stjórnvalda um að renna styrkari stoðum undir sjávarútveg landsins, tryggja sjálfbærni veiða og mataröryggi með því að hvetja til nútímavæðingar greinarinnar.

„Vinnslu- og kælibúnaðurinn frá Skaganum 3X og Frosti undirstrikar framtíðarsýn okkar um að nýta framúrskarandi tæknilausnir til þess að auka samkeppnishæfni félagsins og margfalda gæði sjávarafurða okkar,“ segir stjórnarformaður RK Lenina, Sergey Tarusov.

Framleiðslugeta togarans verður allt að 450 tonn á dag og frystilestarnar rúma 5100 tonn.

Heildarlausnir Frosts samanstanda af umhverfisvænu frystikerfi, sem mun sjá um frystingu á sex sjálfvirkum frystiskápum frá Skaganum 3X.

<b>Auglýsing</b>

<b>Auglýsing</b>