Hamar og Elkem kynntu jákvæðu tækifærin sem liggja í iðnnámi

Nemendur á málmiðnaðarbraut Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi fóru í áhugaverða heimsókn á Grundartanga á dögunum.

Eins og gefur að skilja eru fjölmörg tækifæri fyrir nemendur á þessu sviði hjá fyrirtækjum sem eru með starfssemi á Grundartangasvæðinu.

Vélsmiðjan Hamar á Grundartanga og Elkem Ísland buðu nemendum í heimsókn. Þar sem nemendurnir fengu tækifæri að skoða fyrirtækin og starfsemi þeirra.

Þetta samstarfs verkefni Vélsmiðju Hamars og Elkem Ísland er liður í því að skapa jákvæða sýn nemenda á iðnnám og alla þá starfsemi sem fram fer á Grundartanga.

Sigurður Valdemarsson tæknistjóri Elkem tók á móti nemendunum á svæði fyrirtækisins. Sigurður fór með hópinn í gegnum verksmiðjuna þar sem málmframleiðsla Elkem fer fram. Í þeirri yfirferð fengu nemendurnir að kynnast helstu grunnstoðum Elkem.

Nemendurnir fóru því næst á starfstöð Vélsmiðju Hamars á Grundartanga.

Þar tók Sigurður K. Lárusson deildarstjóri við keflinu og fór með nemendur um starfstöðina. Allt frá verkstæði Hamars þar sem nemendur fengu að sjá hin ýmsu verkefni í vinnslu ásamt flóru af vélum og tækjum til málmsmíða og í gegnum skrifstofur og tæknideild Hamars þar sem m.a hönnunar og tæknivinna fer fram.

Því næst var nemendunum boðið uppá veitingar ásamt því að Sigurður deildarstjóri fræddi nemendur um starfsemi Hamars og mikilvægi iðnmenntunar.