Skúffukaka og mjólk er uppskrift að sigri fyrir Káramenn í knattspyrnunni ef marka má úrslitin gegn Hamarsmönnum úr Hveragerði í gær.
Kári landaði þar 5-1 sigri og komst þar með áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarkeppni KSÍ. Kári mætir Vestra eða Víði þann 20. apríl.
Áhorfendum var boðið upp á mjólk og skúffuköku á leiknum. Í tilefni þess að um fyrsta leikinn var að ræða í Mjólkurbikarkeppninni 2019.
Gestirnir úr Hveragerði skoruðu fyrsta mark leiksins en Sigurður Hrannar Þorsteinsson jafnaði fyrir Kára á 21. mínútu.
Heinz-tómatsósu heilkennið tók síðan við hjá heimamönnum í síðari hálfleik – þar sem allt dótið kom úr flöskunni í einu. Andri Júlíusson, Ragnar Leósson skoruðu með stuttu millibili áður en Stefán Ómar Magnússon bætti við tveimur mörkum í lokin fyrir Kára.
ÍATV var með beina útsendingu frá leiknum og má sjá mörkin hér fyrir neðan.