Pistill: Þorpið í kaupstaðnum lll –Hvíta húsið, ungmennahús


Heiðrún Janusardóttir verkefnisstjóri æskulýðs-og forvarnarmála hjá Akraneskaupstað skrifar hér þriðja pistilinn af alls fjórum þar sem að hún beinir kastljósinu að því mikla starfi sem unnið er í Þorpinu.

Ungmennahúsið Hvíta húsið hóf starfsemi sína 1. maí 2002 í húsnæði gamla Iðnskólans á Akranesi að frumkvæði Rauða kross deilda á Vesturlandi í samstarfi við Akraneskaupstað.

Fyrri hluta ársins fór mikil vinna í endurbætur, innkaup og uppsetningu búnaðar í húsinu.

Þá vann undirbúningshópurinn og forstöðukona að kynningu á fyrirhugaðri starfsemi og skipulagningu hennar.

Húsið var síðan opnað með veglegum hætti þann 1. maí.

Síðan þá hefur húsið verið opið ungu fólki 16-25 ára.

Frá byrjun hefur verið margs konar starfsemi í Hvíta hússinu.

Um áramótin 2003/2004 tók Akraneskaupstaður alfarið við rekstrinum. Starfsemi Hvíta hússins var í gamla Iðnskólanum við Skólabraut fram til janúar 2008 þegar hún flutti í Þorpið, Þjóðbraut 13.

Í byrjun var Hvíta húsið fyrst og fremst kaffi- og menningarhús, eins og önnur ungmennahús á Íslandi en seinni árin hefur verið litið til þess að framlengja það öfluga starf sem á sér stað í félagsmiðstöðvum fyrir unglinga á grunnskólaaldri og þeim árangri sem náðst hefur í forvarnarstarfi til 16 ára aldurs.

Þó starfsemi ungmennahúsa á Íslandi byggi að miklu leiti á hugmyndafræði félagsmiðstöðva er hún þó ólík að því leyti að markhópur ungmennahús er eldri og áhugamál og þarfir aðrar.

Í ungmennahúsum byggja þátttakendur oft á reynslu sinni úr félagsmiðstöðinni, geta axlað meiri ábyrgð og haft enn meira frumkvæði að verkefnum.

Ungmennahús eru þannig vettvangur þar sem ungmenni fá tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og í framkvæmd, vinna að áhugamálum sínum og fást við skemmtileg verkefni.

Hugmyndafræði ungmennahúsa byggir að miklu leyti á virkri þátttöku, reynslunámi og valdeflingu ungs fólks.

Húsráð Hvíta hússins ákveður dagskrá og heldur utan um starfið með aðstoð starfsmanns.

Formlegur opnunartími ungmennahússins er þriðjudagskvöld kl. 18:30 – 23:00, miðvikudagskvöld kl. 18:30 – 23:00 fimmtudagskvöld kl. 18:30 – 23:00.

Ungmenni nýta húsið einnig utan formlegs opnunartíma. Segja má að húsið sé opið ungmennum svo framalega sem einhver starfsmaður er í húsinu.