Pistill: Strompurinn var ávallt boðberi vonbrigða


Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar:

Fall strompsins við Sementsverksmiðjuna á Akranesi fór ekki framhjá mörgum á Íslandi og víðar.

Akranes var um stundarkorn miðdepill „alheimsins“ þegar hinn 70 metra hái strompur féll fyrir dönsku sprengiefni.

Aðgerðin var stór en samt sem áður niðurstaða lýðræðislegrar kosningar hjá íbúum Akraness.

Alls vildu 94,25 pró­sent þeirra sem tóku þátt í kosn­ingu um framtíð stromps Sements­verk­smiðju rík­is­ins láta fella hann. Sam­tals voru 1.095 íbú­ar fylgj­andi því að stromp­ur­inn verði felld­ur en 63 voru því mót­falln­ir, eða 5,75 pró­sent.

Frá því að strompurinn var felldur hafa nánast allir þeir 63 sem voru mótfallnir því að strompurinn yrði felldur látið þá skoðun í ljós á „ég er íbúi á Akranesi“ – (sem verður líklega eini fjölmiðill Akraness til lengri tíma litið – nánar síðar).

Ég var mjög spenntur fyrir fellingu strompsins þrátt fyrir að „vonbrigði“ séu það fyrsta sem komi upp í hugann hjá mér um minningar sem tengjast Sementsstrompinum.

Strompurinn var ávallt boðberi vonbrigða

Þetta 70 metra háa steypuprik sem Alfreð Viktorsson og félagar reistu af myndarbrag á miðri síðustu öld var kletturinn í lífi okkar allra. En á sama tíma var þessi strompur ávallt mikil vonbrigði í mínu lífi sem barn og unglingur á Akranesi.

Afhverju?

Jú það var bara þannig að hverjum morgni leit ég út um gluggann í risherberginu á Laugarbraut 7 – til þess að kanna hvernig veðrið væri úti. (rúðan var einfalt gler, veðurbarinn, rykfalinn og og með broti neðst hægra meginn sem varð til þess að ég fór í greiningu hjá sálfræðingi á sínum tíma….) Nánar síðar.

Niðurstaðan var að skipta um rúðu og sú framkvæmd reyndist happafengur fyrir fjölskylduna.

Hin fullkomna sýn þegar ég leit út um brotna gluggann var hvítur reykur sem liðaðist löturhægt beint upp í loftið og himinblár himinn tók við hvítu meinlausu gufunni.

Slíkt veður bar vott um logn og langa sumardaga til útileikja.

Vonbrigðin voru því oft mikil – þegar reykurinn fór nánast beint niður í SV-slagviðri.

Felling Strompsins er að mínu mati upphaf á einhverju nýju á Akranesi.

Uppbygging framundan þar sem að minningar um brotna einfalda sementsbarða rúðu falla í gleymsku og eitthvað nýtt og spennandi tekur við.