Góður sigur hjá ÍA gegn Blikum í æfingaleik


Karlalið ÍA í knattspyrnu lék í dag æfingaleik gegn liði Breiðabliks.

Bæði lið leika í efstu deild karla í sumar, PepsiMax-deildinni, og var þetta síðasti æfingaleikur ÍA fyrir fyrsta leik tímabilsins sem fram fer um næstu helgi.

Athygli vakti að leikurinn fór fram á Norðurálsvellinum, aðalleikvelli ÍA, og voru aðstæður frekar erfiðar.

Skagamenn sýndu fína takta í leiknum og lönduðu 3-1 sigri. Steinar Þorsteinsson (10.) skoraði fyrsta mark leiksins áður en Aron Bjarnason jafnaði fyrir gestina á 25. mínútu.

Tryggvi Hrafn Haraldsson (56.) og Gonzalo Zamarano (81. ) skoruðu mörk ÍA í síðari hálfleik.

ÍA mætir KA í 1. umferð Pepsi-Max deildarinnar laugardaginn 27. apríl en leikurinn hefst kl. 16.00 á Norðurálsvellinum.