Hleðslustöðvar fyrir rafbíla verða út um allt á Akranesi


Hleðslustöðvum verður fjölgað verulega á Akranesi á næstu misserum. Samkomulag þess efnis var samþykkt í bæjarráði Akraness nýverið.

Akraneskaupstaðar, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur ætla í sameiningu að standa að uppbyggingu innviða til hleðslu á rafbílum á Akranesi.

Akraneskaupstaður leggur til 4 milljónir kr. í verkefnið á árinu 2019, Orkuveita Reykjavíkur leggur til sömu fjárhæð sem mótframlag og Veitur munu annast og kosta lagningu nauðsynlegra rafmagnsstrengja að væntanlegum hleðslubúnaði.

Ef áætlanir ganga eftir verður hægt að hlaða rafbíla við Garðavöll (golfvöllinn), íþróttamiðstöðina á Jaðarsbökkum, Grundaskóla, Brekkubæjarskóla, íþróttahúsið við Vesturgötu, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, Tónlistarskóla Akraness, Akratorg og tjaldsvæðið.