Staða verkefnisstjóra atvinnumála lögð niður hjá Akraneskaupstað


Eins og fram hefur komið á skagafrettir.is hætti Sigríður Steinunn Jónsdóttir sem verkefnastjóri atvinnumála hjá Akraneskaupstað um miðjan maí.

Bæjarráð hefur samþykkt að auglýsa ekki eftir nýjum verkefnastjóra atvinnumála. Fjármagn vegna launakostnaðar verkefnastjóra verður nýtt til aðkeyptrar sérfræðiþjónustu vegna verkefna sem tengjast atvinnuuppbyggingu á Akranesi.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram eftirfarandi bókun á fundi bæjarráðs.

Á fundi bæjarráðs þann 30. ágúst 2018 ákvað meirihluti bæjarráðs að ráða til starfa verkefnastjóra atvinnumála. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins benti þá á að um verulega breytingu frá stefnu síðustu bæjarstjórnar væri um að ræða þar sem mikil áhersla var lögð á aukið samstarf við atvinnuráðgjöf Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi m.a. með því að opna skrifstofu og auka viðveru atvinnuráðgjafa SSV á Akranesi. Þar af leiðandi töldu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skynsamlegra að halda áfram á sömu braut og efla samstarfið við SSV í atvinnumálum fremur en að ráða til þess sérstakan verkefnastjóra með tilheyrandi kostnaðarauka.
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fagnar því núverandi tillögu um að fara ekki í nýtt ráðningarferli á verkefnastjóra atvinnumála og fara frekar þá leið að nýta aðkeypta sérfræðiþjónustu vegna verkefna tengdum atvinnumálum. Þessi niðurstaða er í takt við þá bókun sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram þann 30. ágúst 2018.
Rakel Óskarsdóttir (sign).

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/05/25/sigridur-steinunn-haett-sem-verkefnastjori-atvinnumala/