Líf og fjör í afmælisviku Vallarsels – elsti leikskóli Akraness fagnaði 40 ára afmæli


„Undanfarnar vikur eru búnar að vera mjög skemmtilegar hjá okkur í Vallarseli.,“ segir Brynhildur Björg Jónsdóttir leikskólastjóri á Vallarseli á Akarnesi.

Mánudaginn 20. maí fagnaði Vallarsel 40 ára afmæli sínu en leikskólinn er elsti leikskólinn á Akranesi.

Föstudaginn 17. maí kvöddu 33 kátir krakkar Vallarsel þegar þau útskrifuðust úr skólanum. Í afmælisvikunni var margt í boði og mikið húllumhæ hjá starfsfólki, gestum og nemendum.

„Við gerum eitthvað sérstakt á hverjum degi í þessari viku. Slökkviliðið aðstoðaði okkur við að gera rennibraut með froðu. Það var þrautabraut sett upp á miðvikudaginn og á föstudag verður útidótadagur. Á næstu vikum verða svo allar deildir á ferð og flugi um bæinn að gera eitthvað skemmtilegt,“ bætti Björg við í samtali við skagafrettir.is