Arnar í banni gegn KR – ÍA með yfirhöndina í sögulegu samhengi


Það er sannkallaður stórleikur í PepsiMax-deild karla á laugardaginn þegar ÍA tekur á móti KR á Norðurálsvellinum. Leikurinn hefst kl. 16.00.

ÍA er í 2. sæti deildarinnar með 16 stig en KR er með 14 stig í þriðja sæti þegar þessi frétt var skrifuð.

Einhverjar breytingar verða á ÍA-liðinu á morgun. Hinn leikreyndi Arnar Már Guðjónsson verður ekki með vegna leikbanns. Arnar Már hefur fengið fjögur gul spjöld á tímabilinu og tekur af þeim sökum út leikbann.

Frá árinu 1950 hafa liðin mæst í efstu deild í alls 110 leikjum. ÍA er með 45 sigurleik og KR með 37, en 28 leikjum hefur lokið með jafntefli.

ÍA og KR mættust síðast í efstu deild á Norðurálsvellinum árið 2017 þar sem að leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.