Lögreglan tekur kvartanir um hraðaakstur alvarlega


Lögreglan á Vesturlandi sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem að hraðaakstur var til umfjöllunar.

Margir íbúar hafa á undanförnum dögum og vikum haft samband við lögregluna og kvartað yfir of hröðum akstri.

Lögreglan var við mælingar við skóla á Akranesi um daginn þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km. og vel yfir 70 % ökumanna óku of hratt og margir það hratt að þeir verða sektaðir.

Við erum alla daga ársins að fylgjast með ökuhraða í umdæminu og þessa dagana erum við með þetta til skoðunar á Akranesi.

Við notum ómerkta og merkta lögreglubíla við eftirlitið en allt of margir ökumenn eru að fá sekt fyrir of hraðan akstur.

Reglulega fáum við upplýsingar frá íbúum á Vesturlandi um að það sé ekið of hratt í þeirra hverfi og húsagötum, en eins og við höfum bent á þá eru það oftast íbúarnir sjálfir sem eru þar á ferð og gætu tekið tillit til hvers annars með því að aka hægar.

Við munum skoða ýmsa staði í þessari viku en hvað varðar hraðahindranir og merkingar sem okkur hefur verið bent á að sé ábótavant þá munum við koma þeim upplýsingum til veghaldara eins og t.d. Akranesbæjar og koma tillögum að úrbótum á framfæri.

Takk fyrir að upplýsa okkur um það sem betur má fara og akið varlega í sumarblíðunni.

Með kveðju, Lögreglan á Vesturlandi