Bjarni Skúli Ketilsson er bæjarlistamaður Akraness 2019


Bjarni Skúli Ketilsson var í gær útnefndur bæjarlistamaður Akraness. Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar Akranessl, greindi frá útnefningunni á 17. júní hátíðarhöldunum á Akratorgi í gær.

Á hverju ári velur menningar- og safnanefnd Akraneskaupstaðar bæjarlistamann Akraness. Nefndin óskar eftir tilnefningum um valið frá íbúum bæjarins, vinnur úr þeim tilnefningum sem berast og velur svo einn úr hópnum til að bera titilinn bæjarlistamaður Akraness næsta árið.

Í ræðu sinni fór Valgarður í stuttu máli yfir feril Bjarna Skúla eða BASKA.

Hér fyrir neðan er brot úr ræðu Valgarðs.

Mannlíf og byggingar á Akranesi í nútíð og fortíð gjarnan verið áberandi í verkum hans.

Bjarni Skúli er fæddur á Akranesi þann 5. september árið 1966.

Hæfileikar hans í myndlist komu snemma í ljós og strax í Barnaskóla Akraness sást að drengurinn bjó yfir einhverju sérstöku. Á unglingsárum sótti hann námskeið hjá Bjarna Þór og Hrönn Eggerts hér í bæ og einnig námskeið í módelteikningu í Myndlista- og handíðaskólanum.

Það má því svo sannarlega segja að sem myndlistarmaður hafi Bjarni Skúli notið þjálfunar í myndlistarhefð Akraness, bæjarlistamaður alinn upp af bæjarlistamönnum.

Valgaður Lyngdal Jónsson, Bjarni Skúli Jónsson, Ólafur Páll Gunnarsson.

Árið 1987 hélt Baski til Noregs þar sem hann stundaði nám við leikmyndahönnun. Á næstu árum sótti hann ýmis námskeið og árið 1994 hóf hann nám við myndlistarakademíu AKI Academie voor beldende kunst í Enschede í Hollandi. Því námi lauk hann með BA gráðu fjórum árum síðar.

Frá þeim tíma hefur Baski verið búsettur í Hollandi ásamt hollenskri eiginkonu sinni og þremur börnum þeirra. Síðar náði Baski sér í réttindi til kennslu í myndlist í Zwolle í Hollandi og hefur jafnframt lokið námi í viðgerðum og hreinsun eldri málverka.

Bjarni hefur haldið margar myndlistarsýningar víða um Evrópu, hannað leikmyndir, unnið að forvörslu og haldið námskeið í myndlist fyrir jafnt eldri sem yngri nemendur. Hann hefur tekið þátt í skólaverkefnum og meðal annars stýrt vinnu barna og unglinga við gerð leikmynda og mósaík verka.

Þrátt fyrir að vera búsettur erlendis hefur Bjarni Skúli haldið tryggð við heimahagana og verið ötull við að rifja upp gamlar minningar frá heimabænum Akranesi í gegnum verk sín. Hann málar mikið af eldri húsum, götum og íbúum Akraness og heldur minningum um mannlífið sem áður var á lífi.

Myndir hans frá Akranesi fyrri tíma eru mikilvægar sögulegar heimildir og einnig kalla þær gjarnan fram bros og hlýjar minningar hjá Skagamönnum. Bjarni heimsækir Akranes á hverju ári og heldur hér árlega myndlistarnámskeið og sýningar.

Af fjölmörgum verkefnum Bjarna Skúla sem tengjast Akranesi, ætla ég sérstaklega að nefna tvö nærtæk dæmi:

Árið 2012 gaf Bjarni Skúli út bókina „Akranes, heima við hafið“. Í bókinni gefur að líta röð málverka sem Baski hefur málað og lýsir hann myndaröðinni sjálfur sem „minningum á striga – hversdagsupplifun frá æskuárunum á Akranesi.“

Hverri mynd fylgir stutt saga, endurminning af Akranesi, skráð samkvæmt frásögn Baska af hollenskum rithöfundi, Maria van Mierlo, sem heimsótti hann vikulega á vinnustofuna í hálft ár og fylgdist með verkunum verða til.

Það er gaman að geta þess að nú í ár kom út hljóðbókarútgáfa af bókinni á Storytel.

Á árinu 2017 stóð Baski fyrir gerð og uppsetningu fimm skilta sem eru staðsett við gamlar bæjartóftir í nágrenni Elínarhöfða. Á skiltunum er stuttur fróðleikur um hvert og eitt hús sem og fallegt málverk eftir Baska af húsunum. Leiðin sem gengin er til að skoða skiltin hefur í daglegu tali verið kölluð Baskagangan.“

Eftirtaldir listamenn hafa fengið titilinn bæjarlistamaður Akraness:

2019: Bjarni Skúli Ketilsson, myndlistamaður
2018: Eðvarð Lárusson, tónlistamaður.
2017: Kolbrún S. Kjarval leirlistakona
2016: Slitnir strengir, þjóðlagasveit
2015: Gyða L. Jónsdóttir Wells myndhöggvari
2014: Erna Hafnes myndlistakona
2013: Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur
2012: Sveinn Arnar Sæmundsson orgelleikari
2011: Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópransöngkona
2010: Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður
2005-2009: Friðþjófur Helgason ljósmyndari (eitt kjörtímabil)
2004: Bragi Þórðarson bókaútgefandi og rithöfundur
2003: Enginn hlaut nafnbótina þetta árið en menningarmála- og safnanefnd ákvað að nýta starfsstyrk fyrir menningarviku í október (fyrstu Vökudagarnir)
2002: Kristján Kristjánsson rithöfundur og bókaútgefandi
2001: Smári Vífilsson tenórsöngvari
1999-2000: Enginn hlaut nafnbótina þessi ár en starfslaun bæjarlistamanna var varið til að styrkja listamenn á Akranesi sem gerðu listaverk tengd viðfangsefninu Sjávarlist
1998: Kristín Steinsdóttir rithöfundur
1997: Bjarni Þór Bjarnason myndlistarmaður
1996: Philippe Ricart handverksmaður
1994-1995: Guttormur Jónsson högglistamaður
1993: Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður
1992: Hreinn Elíasson myndlistarmaður