Hin árlega söguganga á írskum dögum var fimmtudaginn 4. júlí s.l.
Gangan er á vegum Bókasafns Akraness og Skagaleikflokksins.
Að þessu sinni voru óvenju margir þátttakendur, eða um 100 talsins að sögn Hallberu Jóhannesdóttur, sem er ein af ,,Kellingunum”, eins og þær kalla sig.
Stansað var á nokkrum stöðum sem tengjast Braga Þórðarsyni og skrifum hans. Lesið var úr bókum hans og sungnir söngvar, sem tengdust. Fyrsti viðkomustaður var Skátaheimilið. Síðan var haldið á Kirkjubraut og rifjaðar upp minningar úr Ævisögu Odds fréttaritara.
Næsti viðkomustaður var Prentsmiðjan. Síðan haldið að Brekkubæjarskóla og rifjaðar upp skólaminningar Braga, einnig sungnar ,,Úmbrassavísur”-vísur Ólafs í Mýrarhúsum.
Næst var stansað við gamla bókasafnshúsið á Heiðarbraut, en þar var Bragi stjórnarformaður um árabil. Þvínæst á horni Stekkjarholts og Kirkjubrautar (við Landakot) andspænis húsnæði Bókaskemmunnar og Hörpuútgáfunnar.
Loks var haldið í Bókasafnið. Þar var boðið upp á hressingu og skemmtilegt söngatriði. Voru þátttakendur þakklátir ,,Kellingunum” fyrir skemmtilega stund.