Eiríkur og félagar á Akurey AK fiskuðu vel við Kolbeinsey


Skagamaðurinn Eiríkur Jónsson er skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK sem er í eigu HB Granda.

Eiríkur og áhöfn hans lönduðu um 130 tonnum af afla á Sauðárkróki nýverið og er aflanum ekið suður yfir heiðar til vinnslu í Reykjavík.

Í viðtali á heimasíðu HB Granda segir Eiríkur að lítið sem ekkert æti sé fyrir þorskinn á Vestfjarðamiðum – og af þeim sökum þurfi að leita að þorskinum á öðrum miðum. Á þessum árstíma hafa ísfisktogarar verið mest á veiðum við Vestfirði.

,,Það virðist vanta æti fyrir fiskinn á Vestfjarðamiðum. Þar er engin loðna og því leitar fiskurinn annað,“ segir Eiríkur en að hans sögn byrjaði hann að þessu sinni út með hrauninu norðan við Kolbeinsey en þangað er um átta til níu tíma sigling frá Sauðarkróki.

,,Við eigum að veiða þorsk og á meðan svo er þá er ágætt að gera héðan út. Það tekur ekki nema þrjá og hálfan tíma að aka aflanum til Reykjavíkur og þetta er því ferskt og gott hráefni,“ segir Eiríkur Jónsson.