Endurgera hluta stakkstæðanna við Breiðina


Starfsmenn garðyrkjudeildar Akraneskaupstaðar vinna þessa dagana við að endurgera hluta stakkstæðanna sem áður voru notuð til að breiða út saltfisk til þerris við Akranesvita á Breiðinni.

Frá þessu er greint á vef Akraneskaupstaðar.

Þetta verkefni er hluti af heildarhönnun arkitektarstofunnar Landslags við Breiðina og er steinalögnin unnin undir handleiðslu Unnsteins Elíassonar, torf- og grjóthleðslumanns.

Verkefnið er til komið vegna styrkveitingar sem Akraneskaupstaður fékk fyrr á þessu ári úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.