Lögreglan á Vesturlandi mun fylgjast grannt með umferðinni og kanna ástand ökumanna og ökutækja, sem eiga leið um umdæmið, alla helgina.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Vesturlandi.
„Verslunarmannahelgin er að fara í gang og að venju eru margir á ferð um Vesturland. Við munum fylgjast með umferðinni að vanda og kanna ástand ökumanna og ökutækja, sem leið eiga um umdæmið, alla helgina.
Við hvetjum ökumenn til að virða reglur um hámarkshraða og bendum á að hraðamælingar verða í gangi á merktum og ómerktum lögreglubifreiðum ásamt því að við notum hraðamyndavélar.
Enn og aftur hafa íbúar víða á Vesturlandi bent okkur á hraðakstur og munum við skoða það sérstaklega hverju sinni og kanna ökuhraða á þeim stöðum sem um ræðir.
Ökumenn geta átt von á því að verða sektaðir, aki þeir of hratt.