Galito fékk fjórar „Michelinstjörnur“ frá starfsfólki hjá Veitum


Það er ávallt mikið um að vera á veitingastaðnum Galito á Akranesi sem er að margra mati í fremstu röð á landsvísu.

Starfsmenn hjá Veitum á Akranesi eru fastagestir á Galito í hádeginu ásamt fjölda annarra viðskiptavina. Enda er þar gæðamatur í boði á góðu verði.

Starfsmennirnir afhentu starfsfólki Galito skemmtilega gjöf í dag. Um var að ræða hinn heimsfræga Michelin karl – ásamt fjórum stjörnum.

Sigurjón Ingi Úlfarsson, einn af eigendum Galito, tók við viðurkenningunni í dag ásamt starfsfólki sínu. Það var Gissur Ágústsson hjá Veitum sem afhenti viðurkenninguna.

„Við erum ótrúlega stolt og ánægð með þessa viðurkenningu. Takk kærlega fyrir okkur,“ sagði Sigurjón Ingi Úlfarsson.

Eins og fram hefur komið áður er engin veitingastaður á Ísland með hina eiginlegu Michelin-stjörnu. Hér fyrir neðan er á nánari útskýring á fyrirbærinu Michelinstjarna.

Dekkjaframleiðandinn Michelin hóf útgáfu handbókar yfir hágæða mathús til að sannfæra almenning um notagildi bíla. Bræðurnir Eduard og Andre Michelin þróuðu loftfyllt bíldekk úr gúmmíi skömmu fyrir aldamótin 1900. Almenningur var hins vegar ekki fullkomlega sannfærður um notagildi bílsins.

Í Frakklandi voru aðeins 380 bílar á þeim tíma og Michelin-bræður áttuðu sig þá þegar á því að þeirra vara var áratugum á undan öðrum dekkjaframleiðendum.

Í fyrstu styrkti Michelin kappakstur og bílstjóra gegn því að þeir notuðu dekk frá þeim. Gúmmídekkin höfðu betra grip en dekk sem ekki voru framleidd með sömu aðferðum. Þrátt fyrir ítrekaða sigra var almenningur enn ekki sannfærður um notagildi bíla. Fjallað er um ótrúlega sögu Michelin fyrirtækisins og bræðranna sjálfra í bókinni The Michelin Men sem kom út árið 2003.

Árið 1900 gaf fyrirtækið því út Michelin handbók fyrir bílstjóra sem höfðu löngun til að ferðast um Frakkland. Bókin var fjögur hundruð blaðsíður og fjallaði ítarlega um borgir og bæi Frakklands. Aðeins var fjallað um veitingastaði hótela í fyrstu handbókinni og matarrýnin var jákvæð og almenn. Stærsti hluti handbókarinnar fjallaði um viðhald á bílnum, dekkjaskipti, varahluti og hvaða apótek seldu bensín í magni. Upplýsingar sem skiptu bílstjóra miklu máli á þeim tíma enda bensínstöðvar seinni tíma uppfinning. Meðal annarra gagnlegra upplýsinga í handbókinni er tímakort um sólarupprás og sólsetur á hverju svæði. Götuljós voru einfaldlega ekki orðin algeng á þessum tíma.

Handbók Michelin hafði það eitt hlutverk að ýta undir hugmyndir um gagnsemi og frelsi bifreiðarinnar meðal hátekjufólks. Meðfram útgáfu bókarinnar þrýsti dekkjaframleiðandinn á hótel að skaffa bílastæði án endurgjalds. Fyrirtækið þrýsti einnig á yfirvöld um að setja upp umferðarskilti og númera vegi.