Hjónin, Ingólfur Árnason og Guðrún Agnes Sveinsdóttir, færðu Akraneskirkju stórgjöf í tilefni merkra tímamóta árið 2016.
„Ég treysti sóknarnefnd og prestum þessa safnaðar til að ráðstafa þessum fjármunum á þann hátt að starfið í söfnuðinum eflist enn frekar,“ skrifar Ingólfur Árnason í gjafarbréfinu sem afhent var í kaffisamsæti í Vinaminni þann 21. ágúst 2016 eftir hátíðarguðsþjónustu í kirkjunni.
Frá vinstri: Ingólfur Árnason, Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur, Indriði Valdimarsson skrifstofustjóri Akraneskirkju og Guðrún Agnes Sveinsdóttir.
Í gjafabréfi sem þau afhentu sóknarpresti Akurnesinga og biskupi Íslands, yfirmanni Þjóðkirkjunnar, segir orðrétt:
Í tilefni af 120 ára vígsluafmæli Akraneskirkju viljum við hjónin,
f. h. fyrirtækjanna Þorgeirs & Ellerts og Skagans, færa kirkjunni fjármuni að gjöf til minningar um föður minn, Árna Ingólfsson lækni, sem lést á þessu ári og tengdamóður mína, Unu Jónmundsdóttur sem lést 2013. Um leið viljum við minnast Harðar Pálssonar sem um árabil var stjórnarformaður hjá Þorgeiri & Ellert og starfaði mikið á vettvangi Akraneskirkju. Hann lést í fyrra.
Upphæðin sem hér um ræðir er 3 milljónir kr. og hefur hún nú þegar verið lögð inn á bankareikning kirkjunnar.
Ég treysti sóknarnefnd og prestum þessa safnaðar til að ráðstafa þessum fjármunum á þann hátt að starfið í söfnuðinum eflist enn frekar.“
Undir þetta ritar: Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Þorgeirs & Ellerts og Skagans.