Hlynur Ben fjallar um lífið, tregann og baráttuna á nýrri sólóplötu – II Úlfar


Tónlistarmaðurinn fjölhæfi, Hlynur Ben, verður með útgáfutónleika í Ölver í Glæsibæ föstudaginn 30. ágúst. Tilefnið er útgáfa á nýrri sólóplötu sem ber nafnð II Úlfar.

Þetta er þriðja sólóplatan sem ég geri og fylgir í kjölfarið á Leiðin heim (2014) þar sem má finna meðal annars lögin HrópumÞað er allt í lagiKaldur bæði og sárVaknaðu og Það þarf svo lítið til, sem öll gerðu það gott á öldum ljósvakans,“ segir Hlynur sem hefur búið á Akranesi ásamt fjölskyldu sinni undanfarin ár.

Hlynur segir að á II Úlfar kveði við annan tón miðað við fyrri verk hans.

„Platan virkar sem ein heild frá upphafi til enda, þrátt fyrir að hvert lag standi líka eitt og sér. Textarnir mynda sögu sem er þó vel opin til túlkunar og hver hlustandi getur upplifað hana á sinn hátt. Lögin fjalla um lífið, tregan og baráttuna sem við eigum við sjálf okkur og aðra, og hvernig vonin og seiglan getur komið okkur í gegnum ótrúlegustu hindranir. Tónlistin er nokkurs konar samblanda af fyrri plötum. En þó með rafrænu ívafi á köflum og afturhvarfi í bílskúrsrokkið sem átti hug minn allan á unglingsárunum,“ segir Hlynur.

Platan kemur út í takmörkuðu upplagi á CD og ótakmörkuðu upplagi á öllum helstu streymisveitum, föstudaginn 30. ágúst.

VITINN:

Auk þess að gefa út nýja hljóðversskífu er einnig skemmtileg hliðarútgáfa sem Hlynur tók upp í Akranesvita 23. ágúst síðastliðinn. Þar er á ferðinni lifandi flutningur á nýjum og eldri lögum í þessum magnaða hljómburði sem vitinn hefur upp á að bjóða.


TÓNLEIKARNIR:

Útgáfutónleikar og almennur fögnuður fer fram á hinum magnaða og nýinnréttaða tónleikastað Ölver í Glæsibæ föstudaginn 30. ágúst.

Hljómsveit:
Birgir Þórisson – Hljómborð
Davíð Atli Jones – Bassi
Pétur Valgarð Pétursson – Gítar
Þorvaldur Kári Ingveldarson – Trommur

Miðasala við inngang og platan til sölu á föstu formi á meðan birgðir endast.

Húsið opnar kl. 20:00 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.21:00.

Eftir tónleikana verður svo smá teiti á sama stað til að fagna útgáfunni.

Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.