Káramenn tryggðu sætið í 2. deild og sendu KFG niður


Andri Júlússon skoraði tvö mörk fyrir Kára og Árni Þór Árnason eitt í 3-1 sigri liðsins í kvöld gegn KFG á útivelli.

Leikurinn var afar mikilvægur fyrir bæði lið í harðri baráttu fyrir tilverurétti sínum í 2. deild karla í knattspyrnu.

Leikurinn fór fram á Samsung vellinum í Garðabæ á heimavelli Stjörnunnar en KFG er í samstarfi við Stjörnuna.

Með sigrinum náði Kári að hrista falldrauginn endanlega af sér.

Liðið hefur fengið 13 stig í síðustu sex umferðum og lagað stöðu sín, sem var ekki glæsileg fyrir nokkrum vikum.

KFG hefur nú tapað sex leikjum í röð og er fallið í 3. deild ásamt liði Tindastóls.