„Ég á bara eitt líf“ fær stuðning með þjóðarátakinu „Á allra vörum“ – sjáðu myndbandið


Þjóðarátakið „Á allra vörum“ 2019 hófst með formlegum hætti með athöfn í Hallgrímskirkju í gær.

Markmið „Á allra vörum“ herferðarinnar 2019 er að vekja þjóðina og tala tæpitungulaust um þessi mál og koma með tillögur að lausn við vandamálinu.

Á síðasta ári létust 39 einstaklingar vegna ofneyslu lyfja.

Í ár verður stutt sérstaklega við verkefnið „Ég á bara eitt líf.“

Félagið er stofnað af foreldrum og systrum Einars Darra Óskarssonar, sem lést á heimili sínu þann 25. maí 2018 eftir neyslu róandi lyfja.

Hann var 18 ára gamall og var nemandi í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Andlát hans var reiðarslag fyrir fjölskyldu hans og vini, enda ekkert sem bent hafði til að hann væri kominn í lyfjaneyslu.

Auglýsing átaksins var frumsýnd í gær, en hún er vægast sagt áhrifarík eins og sjá má hér fyrir neðan.

Leikstjóri auglýsingarinnar er Daníel Bjarnason hjá Skot Productions.

Bára Tómasdóttir og Óskar Vídalín, foreldrar Einars Darra, og systur hans, Andrea Ýr Arnarsdóttir og Aníta Rún Óskarsdóttir, ákváðu að deila sögu Einars Darra í fræðslu- og forvarnaskyni.

Stofnuðu þau minningarsjóð í hans nafni sem ætlaður er fyrir ungmenni í fíknivanda. Sjóðurinn gaf meðal annars út nokkur áhrifarík forvarnarmyndbönd, þar sem vinir, ættingjar og aðrir aðilar sem tengdust Einari Darra komu fram.