Vinir Ólavíu söfnuðu mest í Reykjavíkurmarþoninu


Sá einstaklingur sem safnaði mest allra í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2019 var Olga Katrín Davíðsdóttir Skarstad.

Olga Katrín hljóp fyrir Styrktarfélagið Vinir Ólavíu og safnaði 1.400.000 kr.

Hún fékk einnig flest áheit allra sem tóku þátt í söfnuninni eða 240 einstök áheit.

Olga Katrín hljóp ein fyrir systur sína, Ólavíu Þorkelsdóttur Skarstad, sem er lífsglöð 5 ára stelpa frá Akranesi.

Ólavía greindist með heilaæxli þann 3.júní 2019 sem var svo fjarlægt með skurðaðgerð tveimur dögum síðar. Því miður kom í ljós að æxlið var illkynja stjarnfrumuæxli af gráðu 4.

Af þeim sökum þarf Ólavía því að gangast undir erfiða lyfja- og geislameðferð sem mun taka rúmt ár. Hún byrjar á því að fara í 6 vikna lyfja- og geislameðmerð þar sem hún þarf að fara í geisla alla virka daga á þessu tímabili og eftir að því lýkur tekur við ein lyfjagjöf á mánuði í rúmt ár.

Þeir sem þekkja Ólavíu vita að hún er algjör nagli og hún mun rúlla þessu verkefni upp. Ólavía á stóra fjölskyldu sem stendur þétt við bakið á henni. Fjölskyldan á Akranesi samanstendur af foreldrum Ólavíu, Liv Ásu Skarstad og Þorkeli Kristinssyni og systkinum hennar, Huldu Margréti 26 ára, Olgu Katrínu 19 ára, Kristni Hauki 14 ára, Stefáni Ágústi 7 ára og Sylvíu Clöru 3 ára.

Vinir Ólavíu – Styrktarfélag er hugsað til þess að styðja við og létta undir með fjölskyldu Ólavíu á þessum erfiðu tímum.