Alexander Örn Kárason gerði sér lítið fyrir og fagnaði Íslandsmeistaratitli í klassískum lyftingum um liðna helgi.
Alexander Örn, sem er fæddur árið 1998, keppti í 93 kg. flokki og var þetta jafnfram fyrsta alvöru mótið hjá Skagamanninum í kraftlyftingum.
Í klassískri keppni er keppnisgreinarnar þrjár, hnébeygja, bekkpressa og réttstöðulyfta.

„Þetta var heldur betur skrautlegt, endaði sem Íslandsmeistari í -93 kg. flokki og bætti í leiðinni nokkur Íslandsmet, og persónuleg met,“ skrifar Alexander m.a. á Instagram síðu sína.
Hann setti Íslandsmet í samanlögðu í unglingaflokki, 672,5 kg. og bætti hann gamla metið um 35 kg.
Í hnébeygju lyfti Skagamaðurinn 230 kg.
Alexander setti Íslandsmet í unglingaflokki í bekkpressu þegar hann lyfti 170 kg., en hann bætti gamla Íslandsmetið um 12,5 kg.
Í réttstöðulyftu lyfti hann 272,5 kg. og bætti Íslandsmetið um 12,5 kg.
„Margt gott sem ég tek úr þessu móti en þetta lækkaði líka rækilega rostann í mér því ég var aðeins frá markmiðinu mínu og nú fær @markusmar98 að snoða mig,“ bætir Alexander við á Instagram.
Alexander Örn hefur leikið knattspyrnu með yngri flokkum ÍA á undanförnum árum, sem og með liði Kára. Foreldrar hans eru Kári Steinn Reynisson og Elín Davíðsdóttir.