Rakel: „Huga þarf að tekjumyndun fyrir mannvirkið“


Eins og áður hefur komið fram hefur Akraneskaupstaður ákveðið að lengja vetraropnunartíma Guðlaugar við Langasand. Breytingin felur í sér lengri opnunartíma um helgar.

Kostnaður við þessa breytingu verður tæplega 1,3 milljón kr. Á fjárhagsárinu 2019 hefur Akraneskaupstaður veitt 4,5 milljónum kr. aukalega til reksturs Guðlaugar.

Rakel Óskarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins sem er í minnihluta í bæjarstjórn, lagði fram bókun á síðasta bæjarráðsfundi.

Þar vakti Rakel athygli á því að huga þyrfti að því hvernig Guðlaugin gæti skapað tekjur á móti þeim kostnaði sem fylgir rekstri mannvirkisins.

Rakel Óskarsdóttir.

Bókunin er eftirfarandi:

„Á fjárhagsárinu 2019 hefur Akraneskaupstaður aukið fjármagn til reksturs á Guðlaugu við Langasand að fjárhæð kr. 4.5 m.kr. sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun þessa árs. Í ljósi þessa er mikilvægt að bæjarstjórn Akraness fari vel yfir þennan málaflokk í vinnu sinni að fjárhagsáætlun ársins 2020.

Jafnframt er mikilvægt í framhaldinu að huga að tekjumyndun mannvirkisins til að mæta kostnaði Akraneskaupstaðar.

Opnunartíma Guðlaugar fyrir árið 2020 þarf að skoða samhliða gerð fjárhagsáætlunar 2020.

Akraneskaupstaður kaus að hafa aðgengi að Guðlaugu gjaldfrjálst á árinu 2019 í þeim tilgangi að kynna mannvirkið vel almenningi og bæta aðstöðu fyrir gesti. Það hefur heppnast vel og hafa gestakomur farið fram út björtustu vonum okkar Skagamanna og markmiðinu náð að gera Langasand að segli í ferðaþjónustu á Akranesi.“