„Lagið varð til á námskeiði hjá Söngsteypunni sem ég var á síðasta vetur,“ segir tónlistarkonan Jóna Alla Axelsdóttir í samtali við Skagafréttir. Jóna Alla gaf út nýtt lag í gær og er hún afar ánægð með viðtökurnar.
„Ég er ofsalega glöð að hafa loksins komið þessu í verk, þetta er mikið og langt ferli að baki og nú er uppskera,“ bætir Jóna Alla við.
Á Söngsteypunámskeiðinu lærði Jóna Alla ýmislegt sem hefur gagnast vel í verkefninu.
„Þar lærðum við allskonar um laga- og textasmíðar, sviðsframkomu og tónlistarbransann allan. Námskeiðinu lauk svo með því að allir fengu stúdíótíma til að taka upp sitt eigið lag hjá tónlistarmanninum Vigni Snæ Vigfússyni úr Írafári.“
Jóna Alla fékk góða aðstoð frá vinum og kunningjum í þessu verkefni.
„Dagur Snær, vinur minn frá Selfossi, er mjög duglegur í að búa til tónlist, gefa út og vinna lög fyrir aðra. Ég fékk hann til að mixa og mastera fyrir mig. Anna Bergmann hannaði síðan myndina sem er einkennismynd lagsins á tónlistarveitunum og á internetinu. Hún hannaði myndina nánast frá grunni og er ég mjög svo hamingjusöm með hana.“
Jóna Alla hefur verið áberandi í tónlistarlífinu á Akranesi á undanförnum árum í ýmsum verkefnum og vakið verðskuldaða athygli. Hún ætlar að gefa annað lag út fljótlega.
„Það lag er ekki eftir mig. Strákana í Two Spirits vantaði söngkonu fyrir fallegt lag á íslensku og ég stökk á það en það kemur út á næstu dögum. Annars langar mig mikið að gefa út meira eftir sjálfa mig, jafnvel EP plötu, en það kemur í ljós,“ sagði Jóna Alla Axelsdóttir við Skagafréttir.
Lag og texti – Jóna Alla
Upptökustjóri – Vignir Snær Vigfússon
Mix og master – Dagur Snær Elísson
Píanó – Pálmi Sigurhjartar
Bassi – Baldur Kristjánsson
Trommur – Kristófer Nökkvi Sigurðsson
Gítar – Helgi Reynir Jónsson
Artwork – Anna S Bergmann Helgadóttir